SVONA ER HJALLASTEFNUSKÓLI
Hvernig er Hjallastefnuskóli?
Hver og einn Hjallastefnuskóli er einstakur og starfar sjálfstætt undir stjórn síns stjórnanda sem hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á daglegum rekstri skólans. Þannig hefur hver skóli sitt eigið andrúmsloft og sína eigin menningu en allir starfa þeir þó að sameiginlegu markmiði og eftir sömu námskrá, hugmyndafræði Hjallastefnunnar, sem liggur til grundvallar öllum þáttum fagstarfsins.
Allt sem gerist í Hjallastefnuskóla byggir á hugsjónum sem eru nánar útskýrðar í meginreglum og kynjanámskrá. Meginreglurnar eru grunnur fyrir skólamenninguna og ákvarða lausnir í öllu skipulagi og aðferðum. Kynjanámskráin snýst um persónuþroska hvers barns svo og þá hegðun sem starfsfólk þarf að tileinka sér. Námskráin er iðkuð alla daga og myndar að auki lotur sem skipta skólaárinu upp í sex starfstímabil.
Hjallastefnan er einstök hugmyndafræði og það er margt sem gerir Hjallastefnuskóla einstaka. Kynntu þér dagsskipulag, kjarna, umhverfi og margt annað sem er það sem er einkennandi fyrir skólanna okkar hér á síðunni.
Hver dagur hefur röð, reglu og rútínu
Dagskipulag allra Hjallastefnuskóla, bæði leik- og barnaskólanna, er með mjög svipuðum hætti og hefur ramminn í kringum starfið beinar afleiðingar á gæði starfsins. Þar sem rútínan er skýr, þar líður börnunum vel, því þau vita hvar þau eiga að vera í það og það skiptið og þeim er ljóst hvað tekur við næst. Þessi reglusemi veitir börnunum öryggiskennd. Dagurinn skiptist upp í hópatíma og valtíma til skiptis, með samverustundum á mottu á skiptitímum, og svo að sjálfsögðu matmálstímum. Hjallastefnan leggur mikið upp úr hollum og góðum mat og er með sína eigin matarstaðla. Við tökum fullt tillit til sérstakra óska foreldra með mat án vottorðs um óþol eða ofnæmi.
Hópatímar
Milli klukkan 10 og 14 sjá gestir okkar hópastarf úti og inni þar sem hvert barn tilheyrir fámennum hópi og sami eða sömu kennarar starfa með hópnum allt skólaárið. Þarna eru skipulagðir hópatímar með dansi og hreyfingu, gönguferðum og þrautabrautum, málun, leirgerð og alls kyns föndri, tónlistarhlustun, söng og þulum, sögum og bóklestri og hverju því sem einkennir leikskólastarf. Í þessum hópatímum er líka verið að æfa kynjanámskrána okkar, kjarkæfingar og jákvæðniæfingar, vináttu- og nálægðaræfingar, sjálfstraust og framkomu, virðingu í hegðun og orðanotkun eins og hrósyrði um sig og aðra svo dæmi séu nefnd.
Valtímar
Ef fólk kemur til okkar fyrir kl. 10 og eftir kl. 14 eru valtímarnir sem byrja með valfundi til að allir velji sér viðfangsefni og leiki. Þá er einfaldur og skapandi efniviður í boði ásamt leikstofu og útisvæði og kennarar eru til stuðnings og hvatningar. Allt leikefni er úthugsað til að börn geti ráðið við allt sjálf og þurfi ekki að kalla á aðstoð sem er mikil valdefling. Valtímarnir mæta líka því að hjá okkur kemur enginn of seint og við finnum út úr morgunmat eða sendum barn með nesti í bílinn ef komu- og brottfarartími er óvenjulegur einhverja daga.
Kjarnar
Vinnuumhverfi barnanna eru kallaðir kjarnar, en hugtakið nær utan um eðli starfsins sem þar fer fram því hver kjarni fyrir sig er sjálfstæður og starfsfólkið sinnir flestum málum án aðkomu stjórnenda. Algengast er að á hverjum kjarna séu 3-4 barnahópar með jafn mörgu starfsfólki, en það fer þó eftir aldri og samsetningu barnahópanna.
Á hverjum kjarna eru 2-3 stofur til að hægt sé að undirskipta barnahópnum. Fyrsta stofan sem komið er inn í er vinnustofan, sum staðar kölluð heimastofa, og er því rými skipt upp í nokkur merkt leiksvæði, eða króka, sem notuð eru í leikjum barnanna á valtímum, þ.e. kubbakrókur, leirkrókur, sullkrókur og föndurkrókur með pláss fyrir ákveðinn fjölda barna í hverjum króki. Inn af vinnustofunni eru leikstofur með samverumottum með ámáluðum plássum og númerum. Þarna fer fram frjáls leikur á valtíma með dýnum og púðum, en auk þess fara valfundir fram á samverumottunni, sem og samverur allra barnanna á skiptitímum, þegar skemmtikennari syngur með börnunum, segir sögur, dansar með þeim, fer í leiki eða önnur skemmtilegheit. Inn af leikstofum eru kubbastofur fyrir stóra kubba (hollow wooden blocks) þar sem húsrúm leyfir.
Kjörnun og einföldun
Í dæmigerðum Hjallastefnuskóla er einfaldleikinn ráðandi, lítið er um veggskraut eða annað sjáreiti (e. visual noise) og rósemd svífur yfir vötnunum. Rannsókn hefur sýnt að minni hávaði mælist í Hjallastefnuskólum enda er mikið lagt upp úr rósemd og að minnka áreiti.
Það sem vekur eftirtekt í skólunum eru merkingar á hurðum, veggjum og gólfum, nokkurs konar leiðarvísar og umferðarörvar til að draga úr óþarfa streitu og samkeppni hjá börnunum.
Röð, regla og rútína, R-reglurnar okkar, skapa öruggt og fyrirsjáanlegt umhverfi fyrir börnin, með skýrar og einfaldar reglur, sem er góður undanfari sjálfstjórnar og jákvæðrar og fallegrar hegðunar, en einnig mælistika fyrir þau sjálf á hvernig þeim gengur, því öll vilja þau að sér takist vel til.
Náttúran
Við veljum að staðsetja skólana okkar í nánum tengslum við náttúruna ef þess er kostur. Útisvæðin okkar eru rík af náttúrulegum efnivið með rannsóknarmöguleikum í drullumalli, klifri í trjám eða grjóti. Við erum dugleg að heimasækja við hefðbundna leikvelli í nágrenninu til að prófa leiktækin.
Útistarf og útikennsla er mikilvæg í öllum okkar skólum og sérlega er sótt í ósnortna náttúru þar sem því er viðkomið. Möguleikar í inniveru barna eru alltaf takmarkaðir af skömmtuðu rými byggingarinnar en úti er ekkert sem takmarkar nema himinhvolfið sjálft. Því ber að forðast háar girðingar sem takmarka útsýnið. Grundvallaratriði er að börn njóti þess að vera úti og skynji árstíðir og veðurfar, gróður og dýralíf og uppgötvi þannig þá einstöku fegurð sem náttúran sjálf skapar. Jafnframt njóta þau friðarins og þess samhljóms sem því fylgir að vera í snertingu við mold og gras, vatn og grjót!
Í Hjallastefnuskólum er lögð áhersla á náttúrulegan efnivið, þeir hlutir sem börnin vinna með, eru að mestu úr náttúrulegum efnum og allir litir innan dyra eru mildir jarðarlitir. Allir kjarnar og skólar taka sitt nánasta umhverfi í fóstur og annast bæði umhirðu og ræktun. Af virðingu við náttúruna þjálfa skólarnir svo hófsemi og nægjusemi og láta sér duga lítið og læra að una við sitt. Grasið er ekki grænna „hinum megin“ og öllum er hollt að láta sig vanta eitthvað og láta á móti sér öðru hvoru. Nægjusemin eykur því einbeitingu og minnkar spennu og væntingar. Endurvinnsla er svo hluti af námskrá hvers skóla, í mismiklum mæli eftir aðstæðum á hverjum stað.
Fræðsluefni og bæklingar
Hugmyndafræði – bæklingar
Stoðirnar þrjár
Um Hjallastefnuna
Meginreglur Hjallastefnunnar
Lotur Hjallastefnunnar
Kynjakvarði HjallastefnunnarSöngbók Hjallastefnunnar
Velkomin í Leikskóla Hjallastefnunnar – bæklingar
Velkomin í leikskólann – Stúlkur
Velkominn í leikskólann – Drengir
Velkomin í Barnaskóla Hjallastefnunnar – bæklingar
Barnaskólinn í Reykjavík – upplýsingabæklingur
Barnaskólinn í Garðabæ – upplýsingabæklingur
Barnaskólinn í Hafnafirði – upplýsingabæklingur
Veggspjöld
Meginreglur Hjallastefnunnar
Jákvæðniboðorð Hjallastefnunnar
Jákvæðu Agaboðorð Hjallastefnunnar
Verkfærakista Hjallastefnunnar
Hjallastefnuleikurinn
Other Languages
Hjalli Model
Hjalli Model Basic Principles
Welcome to nursery school – Girls
Welcome to nursery school – Boys
Witaj w przedszkolu – Dziewczyny
Witaj w przedszkolu – Chłopcy