Skip to content

SAGA HJALLASTEFNUNNAR

Hugmyndafræðin verður til

Hugmyndafræði Hjallastefnunnar er hugarfóstur einnar konu frá Hólsfjöllum; frjáls anda sem engan órétt þoldi, og hafði eldmóð brautryðjandans sem trúði því að “það væri ráð við öllu nema ráðaleysi”. Konan er Margrét Pála Ólafsdóttir, sem tók við leikskólanum Steinahlíð í Reykjavík árið 1981 eftir að hafa lokið námi við Fósturskóla Íslands. Til að öll börn fengju notið sín í skóladeginum, þ.e. að þau fengju öll jafna athygli og tækifæri miðað við persónuleika, gáfur, hæfileika og þroska, þá sá Margrét fljótt að það þyrftu að verða breytingar og skýrari nálgun í uppeldisstarfinu. Stefnan þróaðist næstu árin, þar sem margt var prófað, sumt var tekið inn í stefnuna, en öðru sleppt. Þegar Margrét Pála tók svo við nýjum leikskóla í Hafnarfirði, árið 1989, þá var nýja leikskólalíkanið komið á þann stað að það var orðið brúklegt áhald sem notað var við skólann. Skólinn fékk nafnið Hjalli, og hinir nýju starfshættir helguðust m.a. af opnum, náttúrulegum efniviði, eða “leikfangaleysi” eins og hann var gjarnan kallaður með neikvæðum formerkjum, skýrar hópaskiptingar barnanna með hópstýrum/-stjórum og síðast en ekki síst kynjaskiptingunni.
Ekki leið þó langur tími frá opnun skólans, þar til mikil og neikvæð fjölmiðlaumfjöllun hófst, ásamt harðri gagnrýni frá fagfólki, jafnt á uppeldis- og á jafnréttisviðinu. Háværar deilur milli Hjalla og Hafnarfjarðarbæjar um starfshætti leikskólans, fjármál, stjórnun og nánast allt sem laut að leikskólanum og Margréti Pálu sjálfri, fylgdu svo í kjölfarið. Ítrekað var ráðist að kynhneigð Margrétar Pálu, bæði á fundum og í fjölmiðlum, en hún var fyrsti kennari til að koma úr felum á tíma þegar samkynhneigð var enn álitin vafasöm og almennt álitið að “svona fólk” ætti ekki að starfa með börnum. Starfsfólk leikskólans, ásamt leikskólafulltrúa bæjarins sagði upp störfum þar sem hvorki traust né vinnufriður var lengur fyrir hendi. Foreldrar stóðu með Hjalla og hinni nýju stefnu, og beittu bæinn miklum þrýstingi um að samþykkja hugmyndafræðilegt frelsi starfsfólksins og að lokum náðist samningur um að leikskólastjóri og starfsmannahópurinn hefði fullt frelsi um starfshætti leikskólans. Allar yfirlýsingar um kynjaskipta starfið og misbresti í stjórnun voru dregnar til baka af hálfu bæjarins, sem samþykkti enn fremur að styðja bókarskrif og koma að gerð heimildarmyndar um Hjallastefnuna.
Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, enda er Hjallastefnan með samninga við ellefu sveitarfélög um rekstur fjórtán leikskóla og þriggja grunnskóla, með um 1.500 börnum og starfsfólki sem telur rýflega 400. Árið 1999 var Hjallastefnan ehf stofnað til að halda utan um sjálfstæðan rekstur á leik- og grunnskólastigi, með það að markmiði að skapa Hjallastefnunni sem bestar aðstæður til þróunar skólastefnunnar. Samhliða því að auka fjölbreytni í skólastarfi var fyrirtækinu ætlað að valdefla konur og kvennastörf með jafnrétti að leiðarljósi. 
Hjallastefnan er frumkvöðull í rekstri og þróun menntafélags, en ávallt er leitast við að finna jafnvægi milli þess að setja miðlægar kröfur og þess að hver skóli haldi sjálfstæði sínu til að skapa og virða menningu samfélagsins sem skólinn sprettur upp úr. Sem jafnréttisfélag hefur Hjallastefnan barist fyrir því að allir skólar njóti jafnræðis varðandi opinber fjárframlög þannig að allir foreldrar fái notið valfrelsis þegar kemur að uppeldi og menntun barna sinna, óháð fjárhagsstöðu og öðrum þáttum.

1981 Hugmyndafræðin fæðist

Margrét PálaHjallastefnan sem hugmyndafræði á rætur sínar í þróunarstarfi sem hófst árið 1981 þegar höfundur stefnunnar, Margrét Pála Ólafsdóttir, humanisti, uppeldis- og menntafrömuður hóf starfsferil sinn. Hún hafði þá lokið leikskólakennaranámi og vildi ögra þáverandi leikskólastarfi með nýjum hugmyndum. 

1989 Hjalli í Hafnafirði

Þann 25. september 1989 opnaði Hafnarfjarðarbær nýjan leikskóla, Hjalla í Hafnarfirði. Bærinn réði til starfa leikskólastýruna, Margréti Pálu Ólafsdóttur, sem tók að innleiða nýjar áherslur í leikskólastarfi.  Þann 1. maí 2000 varð Hjalli svo sjálfstætt rekin Hjallastefnuleikskóli þegar Hjallastefnan ehf. tók yfir rekstur skólans. 

1999 Hjallastefnan ehf. stofnuð

Árið 1999 var einkahlutafélagið Hjallastefnan stofnað til að halda utan um sjálfstæðan rekstur á leik- og grunnskólastigi, með það að markmiði að skapa Hjallastefnunni sem bestar aðstæður til þróunar uppeldisstefnunnar. Samhliða því að auka fjölbreytni í skólastarfi var félaginu ætlað að valdefla konur og kvennastörf með jafnrétti að leiðarljósi.

2001 Leikskólinn Ásar er stofnaður

Árið 2001 gerði Hjallastefnan þjónustusamning að undangegnu útboði við Garðabæ um rekstur Leikskólans Ása. Það var gæfa að leikskólareksturinn féll í hendur reyndra kvenna úr leikskólastarfi.  Leikskólinn opnaði svo sumarið 2001 sem Hjallastefnuleikskóli.  

2003 Fyrsti Barnaskólinn

Árið 2003 hóf Hjallastefnan rekstur á grunnskólastigi í Garðabæ og draumur höfundar, Margrétar Pálu, varð að veruleika að þróa hugmyndafræðina á grunnskólastigi. Barnaskóli Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum í Garðabæ tók til starfa haustið 2003.  

2003 Leikskólinn Eyrarskjól

Hjallastefnan var tekin upp í Leikskólanum Eyrarskjóli á Ísafirði í ágúst 2003 og nýtti starfsfólkið sér alla þætti úr námskrá Hjallastefnunnar, auk þess að vinna eftir aðalnámskrá leikskóla, með sérstaka áherslu á markvissa málörvun og stærðfræði. Árið 2014 tók svo félagið Hjallastefnan við rekstri leikskólans. 

2006 Leikskólinn Hólmasól

Árið 2006 var opnaður nýr og glæsilegur leikskóli, Hólmasól á Akureyri. Að undangengnu útboði var gerður samningur við Hjallastefnuna um rekstur skólans. Hefur leikskólinn frá stofnun starfað undir merkjum Hjallastefnunnar.  Hólmasól stendur á milli Þórunnarstrætis (hyrnu) og Helgamagrastrætis en Hólmasól var dóttir þeirra. 

2006 Leikskólinn Hraunborg

Þann 1. ágúst árið 2006 tók Hjallastefnan tók við rekstri Leikskólans Hraunborgar á Bifröst í Borgarnesi.

2007 Leikskólinn Akur

Árið 2007 var opnaður nýr leikskóli í Reykjanesbæ, Leikskólinn Akur. Hjallastefnan hefur rekið skólann frá upphafi. Hjallastefnan var þó ekki ný í sveitafélaginu því systurskóli Hjallastefnunnar, Gimli, hafði starfað eftir hugmyndafræði Hjallastefnunnar um lang árabil. 

2007 Leikskólinn Völlur

Árið 2007, sama ár og Akur tók til starfa tók Hjallastefnan við rekstri Leikskólans Vallar. Áður hafði verið starfræktur leikskóli fyrir börn starfsfólks Bandaríkjahers á vallarsvæðinu. 

2007 Leikskólinn Laufásborg

Leikskóli hefur verið starfræktur í Laufásborg frá 1952 en í janúar 2006 tók Hjallastefnan við rekstri Laufásborgar og í þessu fallega húsnæði sem oft er nefnt Hamingjuhöllin, er starfræktur Hjallastefnuskóli. 

2007 BSK Hafnafirði

Barnaskóli Hjallastefnunnar í Hafnarfirði hóf starfsemi sína haustið 2006 sem útibú frá Barnaskólanum í Garðabæ. Eftir fyrsta starfsárið var sótt um sjálfstætt starfsleyfi fyrir skólann og frá haustinu 2007 hefur skólinn verið rekinn sem sjálfstæður barnaskóli fyrir yngsta stig grunnskóla, 1.-4. bekk. Frá árinu 2018 verið fimm ára deild verið hluti af skólastarfinu. 

2008 BSK Reykjavík

Barnaskóli Hjallastefnunnar í Reykjavík var settur 1. október 2008. Hann var fyrst til húsa í leikskólanum Laufásborg og síðar við Suðurgötu 14, í hjarta miðborgarinnar.  Haustið 2009 fluttist skólinn í eigið húsnæði við Nauthólsvegi 87 í Öskjuhlíðinni. Skólinn er nú til húsa í Skógarhlíð 6 þar sem hann starfar í náinni samvinnu við leikskólann Öskju sem einnig er rekinn af Hjallastefnunni.

2009 Leikskólinn Askja

Leikskólinn Askja hóf göngu sína þann 21. september 2009 á Nauthólsvegi 87 í Reykjavík. Eftir að skólinn þurfti að rýma lóðina sem er í eigu Háskólans í Reykjavík, flutti skólinn starfsstöð sína í Skógarhlíðina og starfar þar náið með Barnaskólanum í Reykjavík. 

2012 Leikskólinn Sóli

Hjallastefnan og Vestmannaeyjabær gerðu með sér rekstrarsamning vorið 2012 og tók Hjallastefnan formlega við leikskólanum Sóla í ágúst 2012. Vestmannaeyjabær vildi bjóða upp á aukið val fyrir foreldra og er Sóli annar af tveimur leikskólum sem reknir eru í bænum. 

2012 Leikskólinn Sólborg

Árið 2012 tók Hjallastefnan við rekstri leikskólans Sólborgar. Margrét Pála hafði fyrir þann tíma starfað  með sveitafélaginu sem ráðgjafi í leikskólamálum. Leikskólinn Sólborg er eini starfrækti leikskólinn í sveitafélaginu og fylgdi því ekki stefnu Hjallastefnunnar að vera aukið val foreldra. Árið 2023 var tekin ákvörðun að sveitafélagið tæki yfir rekstur skólans á nýjan leik. 

2015 Leikskólinn Barnaból

Þann 1. janúar 2015 var gerður samningur á milli Sveitarfélagsins Skagastrandar og Hjallastefnunnar og varð Leikskólinn Barnaból að Hjallastefnuleikskóla. 

2015 Tálknafjarðarskóli

Tálknafjarðarskóli sem er bæði leik- og grunnskóli var rekinn af Hjallastefnunni skólaárin 2015-2018.

2016 Leikskólinn Hnoðraholt

Árið 2016 tekur Hjallastefnan ehf ákvörðun um að stofna ungbarnaleikskóla og hóf að innrita börn frá níu mánaða aldri. Leikskólinn Hnoðraholt í Garðabæ hóf starfssemina í ágúst  2016. Leikskólinn hefur stækkað verulega frá sínu fyrstu dögum og í dag stunda nám í skólanum börn frá eins til fjögurra ára. 

2018 Leikskólinn Litlu Ásar

Leikskólinn Litlu Ásar opnaði fyrst sem ungbarnaleikskóli en árið 2018 hóf leikskólinn að bjóða inn börn frá eins til fjögurra ára. Á Vífilstaðatorfunni starfa Litlu Ásar við hlið Hnoðraholts og Barnaskólans í Garðabæ. 

2019 Leikskólinn Bergheimar

Árið 2019 leitaði sveitarfélagið Ölfus eftir samstarfi við Hjallastefnuna um rekstur leikskólans Bergheima. Hjallastefnan tók við rekstri skólans haustið 2019. 

2024 Leikskólinn Árborg

Hjallastefnan hefur gert þjónustusamning við sveitafélagið Árborg um rekstur á Leikskólanum Árborg. Þann 1. ágúst 2024 mun Hjallastefnan taka alfarið við rekstri skólans.