STEFNUR
Hjallastefnan leggur mikið upp úr meðferð og öryggi gagna og hagnýtir upplýsingatækni og upplýsingakerfi við varðveislu þeirra á sem hagkvæmastan hátt.
Upplýsingakerfi Hjallastefnunnar innihalda persónugreinanlegar upplýsingar sem ekki má nota í öðrum tilgangi en vegna starfsemi Hjallastefnunnar og Hjallastefnuskóla. Trúverðugleiki og hagsmunir aðila, sem tengjast málum er upplýsingarnar varða, gætu skaðast ef upplýsingarnar eru ónákvæmar, komast í rangar hendur eða eru ekki aðgengilegar þegar þeirra er þörf.
Hjallastefnan starfar samkvæmt stefnu um upplýsingaöryggi:
Upplýsingaöryggisstefna Hjallastefnunnar
Persónuvernd starfsfólks skiptir Hjallastefnuna miklu máli. Stefna þessi tekur til persónuupplýsinga hvort sem þeim er safnað og þær varðveittar með rafrænum hætti, á pappír eða með öðrum sambærilegum hætti. Stefnan tekur til skráningar, vörslu og vinnslu á persónuupplýsingum sem falla undir stefnuna. Stefnan er aðgengileg á innri vefsíðu Hjallastefnunnar og er hún einnig kynnt fyrir starfsfólki Hjallastefnunnar.
Jafnrétti er eitt af grunngildunum Hjallastefnunnar og því er það forgangsatriði í því að framfylgja stefnunni að tryggja að starfsfólki séu greidd jöfn laun og að það njóti sambærilegra kjara fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf.
Hjallastefnan er kærleiksmiðuð og skapandi lýðræðisstefna þar sem allt starf snýr að jafnrétti með einum eða öðrum hætti en Hjallastefnan var meðal annars stofnuð til að stuðla að auknu jafnrétti og lýðræði í samfélaginu. Hjallastefnan er í eðli sínu jafnréttisstefna. Í Hjallastefnunni er heilbrigð og sterk menning þar sem markmið er að allt starfsfólk skynji að það tilheyri samfélagi þar sem borin er virðing fyrir öllum. Til að fylgja eftir stefnu Hjallastefnunnar í jafnréttismálum er unnið eftir Jafnréttisáætlun þar sem fram koma markmið, aðgerðir, ábyrgð og tímarammi verkefna til að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri starfsfólks Hjallastefnunnar, óháð kyni eða annara þátta til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli þessara eða annarra óviðkomandi þátta. Áætlunin tekur til allrar starfsemi Hjallastefnunnar sbr. 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.
Öllum sem vinna hjá Hjallastefnunni ber að fara að lögum og reglum í störfum sínum og vinna að þeim hagsmunum sem þeim er treyst fyrir. Starfsfólki Hjallastefnunnar og öðru fólki gefst hér tækifæri til að koma á framfæri tilkynningu, telji það sig hafa orðið vart við brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Hjallastefnunnar. Ábending verður að byggja á rökstuddum grun en slíkur grunur þarf þó ekki að vera hafinn yfir allan vafa. Lögð er áhersla á að tilkynning sé vel rökstudd og að helstu upplýsingar komi fram í henni, s.s. hver ábendingin er, tímabil atburðar, hvar atburður átti sér stað og nánari lýsing á málavöxtum. Farið verður yfir allar ábendingar sem berast og mál skoðað nánar af misferlisteymi Hjallastefnunnar teljist tilefni til. Hjallastefnan hefur sett sér verklagsreglur sem skjalfestir verklag við meðferð tilkynninga um meint misferli og vernd uppljóstara.
Verklagsregla um uppljóstrun starfsfólks um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi