KYNJANÁMSKRÁ
Kynjanámskráin er útfærsla á hugmyndafræði Hjallastefnunnar, þar sem markmiðið er að tryggja jafnrétti kynjanna sem og annarra hópa og veita börnum frelsi frá neikvæðum afleiðingum kynjakerfisins og staðalmyndum. Hjá Hjallastefnunni er gengið út frá þeirri kennisetningu að kynin öðlist takmarkaða færni og æfi of fáa eiginleika vegna heftandi hugmynda um kynhlutverk og vegna kynjamótunar sem samfélagið ákvarðar á grundvelli kyns. Kynjanámskráin tryggir að öll börn fái heildstæða þjálfun í mannlegum eiginleikum óháð kyni, en markmiðið er að veita börnum tækifæri til að leika og læra á eigin forsendum án takmarkana sem kynjakerfið setur.
Kynjanámskráin skiptist í þjálfun í félagslegri færni og einstaklingslegri færni. Samkvæmt kenningum Hjallastefnunnar þarfnast stúlkur meiri hvatningar í einstaklingsfærni eins og í jákvæðni, frumkvæði, kjarki og krafti en drengir þarfnast meiri hvatningar í félagsfærni eins og að sýna virðingu, æfa samskipti, vináttu og kærleika.
Öll kynjanámskráin er iðkuð alla daga í skólunum okkar en til frekari áréttingar eru hinir sex þættir námskrárinnar teknir fyrir í lotum allt skólaárið.
Hver lota stendur í fjórar vikur í senn og síðasta vika lotunnar er nefnd uppskeruvika. Í þeirri viku fagna starfsfólk, börn og fjölskyldur þeim árangri sem hefur náðst í lotunni.
Loturnar byggjast á því að þjálfa og bæta bæði einstaklings- og félagsfærni hvers barns. Þrjár þeirra einkennast af þjálfun og styrkingu eiginleika og færni sem er oftar tengd við karlmennsku á meðan hinar þrjár einkennast af þjálfun og styrkingu eiginleika og færni sem er oftar tengd við kvenleika. Með því að fylgja eftir öllum sex lotum fær hvert barn því heildstæða þjálfun í einstaklings- og félagsfærni, þar sem jafnvægi ríkir á milli eiginleika sem eru oft tengdir við kyn. Allir þættir kynjanámskrárinnar eru þó ávallt í forgrunni í öllu skólastarfinu.
Agalotan er fyrsta stig félagsþjálfunar og fer fram í ágúst-september.
Lykilhugtök lotunnar eru: virðing, hegðun, kurteisi, framkoma.
Uppskeruvikan er framkomuvika.
R-reglurnar eru í hávegum hafðar í Hjallastefnustarfi; röð, regla og rútína í fyrirrúmi á öllum sviðum. Kjarnað umhverfi alls staðar, allir hlutir merktir, umferðarreglur merktar og sýnilegt og áþreifanlegt hvernig allt á að vera. Þaulhugsuð dagskrá og einfaldleiki í öllu skipulagi er jafnmikilvægt og umhverfiskjörnunin. Í kjarnastarfinu er síðan áherslan á skarpa nemendastjórnun með nákvæmri eftirfylgd og hegðunarreglum sem börnin taka þátt í að móta, kynna og endurskoða. Þjálfun í kurteisi og mannasiðum, æfing í að heilsast og kveðjast, borðsiðir og umgengni um fataklefa eru raunveruleikatengd verkefni í þessari lotu. Framkomuhæfni í kynjablöndun þarf að æfa sérstaklega. En almennt séð; því ekki að tala um hegðunarfræði og jafnvel gefa einkunn fyrir frammistöðu! Munum að æfa okkur líka því árangur barnanna ræðst af þeim aga sem við náum að sýna, til dæmis varðandi frágang, kyrrlátar raðir milli staða, stundvísi o.fl.
Sjálfstæðislotan er fyrsta stig einstaklingþjálfunar og fer fram í október-nóvember.
Lykilhugtök eru: sjálfstyrking , sjálfstraust, öryggi, tjáning.
Uppskeruvikan er tjáningarvika.
Athygli og hvatning til allra er kjarni þessarar lotu. Kennarar leggja sig fram við að nálgast hvern og einn nemanda og sannfæra bæði nemandann og fjölskylduna um óendanlegan vilja skólans til að hafa þennan einstakling í fyrsta sæti! Verkefni tengd fjölskyldum eru frábær, fregnir að heiman mikilvægar og snjallt er að þau komi með hlut að heiman til að segja hinum frá. Skemmtilegt boð á kjarnakvöld eða ömmu- og afaheimsóknir eru snjallræði og fjölskyldumorgunn á að vera í þessari lotu. Framsagnaræfingar eru góðar og þjálfun í að tjá tilfinningar er mikilvægur þáttur; t.d. að ræða um hvernig nemendum líður þegar þeir koma í skólann, teikna myndir og ræða um það sem er best í skólanum eða hvenær þeim líður illa og hvað hægt sé að gera í því. Beinar æfingar í jákvæðri tjáningu um sjálfa/n sig eru frábærar.
Samskiptalotan er annað stig félagsþjálfunar og fer fram í nóvember-desember.
Lykilhugtök eru: umburðarlyndi, hjálpsemi, víðsýni, samstaða.
Uppskeruvikan er samstöðuvika.
Í þessari lotu eru samvinnuverkefni af ýmsu tagi efst á baugi. Tveir og fleiri eru saman í verkefnum, samvinna er í kynjablönduninni og samvinna milli eldri og yngri kjarna. Þessi lota er í raun eineltisáætlun Hjallastefnunnar því hér er fjallað um samskiptin í sinni víðustu mynd, nemendum kennt að virða landamæri annarra og standa saman um jákvæða framkomu og jákvæða hegðun, enda má segja að þessi lota snúist um félagslega jákvæðni. Hér er kjörið að fara í verkefni s.s. um fjölmenningu og fjölbreytt þjóðerni, ólík sambúðarform fólks, fötlun og fleira sem skapar sérstöðu í samfélaginu. Hér er einnig kjörið að kjarni og skóli rétti öðrum hjálparhönd á skipulagðan hátt s.s. með heimsóknum á sjúkrahús og elliheimili, sjálfboðastarfi fyrir Rauða krossinn eða heimsæki smábarnaskóla og hjálpi litlu börnunum. Loks er mikilvægt að vinna að verkefnum sem ýta undir samstöðu og samkennd kjarna eða skóla og skapa jákvætt hópstolt.
Jákvæðnilotan er annað stig einstaklingsþjálfunar og fer fram í janúar.
Lykilhugtök eru: ákveðni, hreinskiptni, bjartsýni, gleði.
Uppskeruvikan er gleðivika.
Jákvæðnilotan er upphaf nýrrar annar og er frábært að slá jákvæðan takt inn í skólastarf vorannarinnar. Vitaskuld er jákvæðni alltaf í fyrirrúmi alla daga skólaársins en þarna er tækifæri til að formgera jákvæðniæfingarnar. Vinna með jákvæð orð og jákvæðar setningar, leikrit um jákvæða og neikvæða hegðun og gleðisöngvar eru meðal þess sem vinna má með. Jafnframt er mikilvægt að fjalla um bjartsýni og hvernig bjartsýnin birtist í afrekum mannkynssögunnar. Gleðin er æfð með öllum tiltækum ráðum og munum að söngur og hreyfing ýtir best við þeim boðefnum heilans sem valda taugafræðilegri gleði. Samhliða þjálfuninni í að skilja hvað jákvæð afstaða til lífsins þýðir, ber að vinna verkefni sem þjálfa börnin í að setja mörk fyrir sjálf sig, landamæri sem þau geta af ákveðni og elskulegheitum tjáð sig um. Beinar æfingar og umræða um það sem hver og ein/n vill fyrir sjálfa/n sig og hvernig við látum aðra vita af mörkunum okkar er hreinskiptniæfing og leikrit um skýr og óskýr skilaboð eru kjörin. Munum hið gamla og góða Hjallaráð; ekki segja ekki.
Vináttulotan er þriðja stig félagsþjálfunar og fer fram í febrúar-mars.
Lykilhugtök eru: félagsskapur, umhyggja, nálægð, kærleikur.
Uppskeruvikan er kærleiksvika.
Vináttulotan er beint framhald af bæði samskipta- og jákvæðnilotunni og í reynd hástig þeirrar félagslegu jákvæðni sem þjálfuð hefur verið. Þar styrkjum við og eflum vináttu á allar lundir og vinaleikir s.s. leynivinaleikir barna- og fullorðinna eru skemmtilegt tækifæri. Einnig er mikilvægt að vinna með skilgreiningar á vináttunni, álit barnanna á vináttunni og hvað það þýðir að vera vinur eða vinkona. Umhyggjuæfingar geta verið fjölmargar t.d. fjölskyldumorgun þar sem foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að koma með yngri systkini og eins geta kjarnar og hópar æft umhyggju og tillitsemi sín á milli og gagnvart öðrum í skólasamfélaginu. Raunveruleikatengd verkefni væru til dæmis að vinna verk fyrir aðra í húsinu s.s. fyrir stoðþjónustuna og hjálpa öðrum á kjarnanum við t.d. frágang. Kennarar og nemendur vinna saman að því að skapa nálægð og kærleika á kjarnanum sínum, æfa snertingu s.s. faðmlög og þegar raðir fara milli staða er kjörið að hafa vinaraðir þar sem tvö og þrjú leiðast í stað einfaldrar raðar.
Áræðnilotan er þriðja stig einstaklingsþjálfunar og fer fram í mars-apríl.
Lykilhugtök eru: kjarkur, kraftur, virkni, frumkvæði.
Uppskeruvikan er frumkvöðlavika.
Þessari síðustu lotu kynjanámskrárinnar er ætlað að reka smiðshöggið á heildarstarf vetrarins hvað varðar persónuþroska, bæði í einstaklings- og félagslegu tilliti og skilning barnanna á fjölþættum eiginleikum og mannlegri hæfni. Hér reynir á áræðni, kjark og framkvæmdagleði en kjarkæfingarnar geta verið af ýmsum toga. Þar má nefna skólaferðina sem reynir svo sannarlega á kjarkinn, líkamlega áreynslu og íþróttir svo og að koma fram fyrir stórum hópi í tjáningu, dansi eða tónlist. Hér er fengist við leiðtogahæfileika og hæfni til að þora að standa fyrir máli sínu, til dæmis með rökræðum og heimspekilegri úrvinnslu. Frumkvæði er styrkt og fjallað vitsmunalega og verklega um möguleika nemenda til að hafa áhrif á umhverfi sitt með nýjum hugmyndum, nýjum lausnum, lýðræðislegum reglubreytingum og formlegum tillögugerðum til stofnana og aðila sem hafa áhrif á líf okkar. Því ekki að heimsækja skólanefnd sveitarfélagsins með handskrifað erindi um eitthvað sem skólann varðar eða heimsókn í fyrirtæki til að sækja efnivið í verkefni kjarnans? Þannig styrkist gerendahlutverkið og sjálfstrúin á að við séum okkar eigin gæfu smiðir.