MARGRÉT PÁLA ÓLAFSDÓTTIR
Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, húmanisti, og uppeldis- og menntafrömuður, hóf starfsferil sinn sem fóstra á leikskólanum Hagaborg árið 1981, þá nýútskrifuð úr Fósturskóla Íslands. Eftir aðeins eins árs starfsreynslu þar, tók Margrét Pála við leikskólastýrustöðu í Steinahlíð, en þessi tilfærsla í starfi átti eftir að reynast ákveðin tímamót hjá Margréti, þar sem aukið sjálfstæði og ábyrgð rótaði í, og í rauninni framkallaði enn dýpra innsæi hjá henni, og næmni, fyrir velferð barna. Hún fór að veita samskiptum barnanna og jafnvægi milli kynjanna aukna athygli og var óhrædd við að gera róttækar breytingar á starfsháttum, uppröðun og efnisvali í daglegu starfi leikskólans, ávallt með starfsfólk skólans með sér í liði. Þegar hún var svo ráðin leikskólastýra á nýjum leikskóla í Hafnarfirði, árið 1989, var hún þegar komin langt með að formgera hina nýju námskrá, sem átti eftir að verða það áhald sem unnið var eftir á nýja leikskólanum sem fékk nafnið Hjalli. Hin nýja og einstaka hugmyndafræði Margrétar Pálu byggði á félagslegum jöfnuði, lýðræði, skapandi hugsun og starfi, og jafnrétti kynjanna. Hugmyndafræði þar sem líðan og þroski hvers einasta barns var í brennidepli og allt starf hverfðist um kærleika og nærveru barna og fullorðinna. Hjallastefnan hafði litið dagsins ljós og átti þessi nýja uppeldisstefna eftir að skella á hinu hefðbundna leikskólastarfi landsins með kinnhesti, enda þóttu starfshættir Hjallastefnunnar talsvert ögrandi og þykja víða í uppeldis- og menntaheiminum hérlendis, enn þann dag í dag.
Meðfram brautryðjendastarfi sínu innan Hjallastefnunnar lauk Margrét Pála frekara námi í stjórnun skóla, meistaraprófi í uppeldis- og menntunarfræðum og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Margrét Pála hefur skrifað fjölda bóka og greina um jafnrétti, uppeldi og menntun, en hún er einnig þekkt sem ráðgjafi og fyrirlesari hérlendis og erlendis, og hún hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir störf sín, þar á meðal sæmdi forseti Íslands Margréti Pálu heiðursmerki hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir nýsköpun í menntun.
Margrét Pála er enn aktívur frumkvöðull og brautryðjandi í uppeldis- og menntamálum, enda brennur hún fyrir betri heimi fyrir öll börn. “Lifi byltingin” heyrist Margrét Pála stundum segja með þunga þegar henni er mikið niðri fyrir og þá vitum við sem þekkjum hana vel að nú séu breytingar í farvatninu.
Fyrirlestrar
Margrét Pála er vinsæll fyrirlesari og hér má finna ýmis konar fyrirlestra og viðtöl.
Greinar
Greinar eftir Margréti Pálu sem hafa birtst í innlendum og erlendum fjölmiðlum.
Bækur
Margrét Pála er höfundur Hjallastefnunnar en hefur einnig skrifað margar aðrar bækur.
Heimspressan
Hjallastefnan og Margrét Pála hafa vakið heimsathygli og hér er hægt að finna mikið af umfjöllun.