MEGINREGLUR
Meginreglur eru sex talsins og eru settar upp í skýrri forgangsröð.
- Börn og foreldrar
- Starfsfólk
- Umhverfi
- Efniviður
- Náttúra
- Samfélag
Í meginreglunum birtast hugsjónir okkar, bæði innri þættir eins og þau lífsgildi sem við starfsfólk sameinumst um; viðhorf, mannskilningur og lífssýn svo og ytri þættir eins og skipulag, starfshættir og aðferðir sem byggja á umræddum hugsjónum og einkenna Hjallastefnuskólana.
Markmið meginreglnanna er að byggja upp jákvæða og kærleiksríka skólamenningu og einnig leggja af mörkum til grenndarsamfélags okkar þannig að við getum haft áhrif til góðs hvar sem við komum. Hlutverk meginreglnanna er að tryggja að skólaskipulag og starfsaðferðir séu í fullkomnum takti við hugsjónirnar, frá hinu stærsta til hins smæsta
Meginregla 1 – Börn og foreldrar
Börn eru eins misjöfn og þau eru mörg – einstök hvert og eitt. Öll hafa þau skýr einstaklingseinkenni, sérstaka hæfni og áhuga og sterkan vilja. Það er grundvallaratriði fyrir farsæld þeirra að skólinn hlúi að þeim á þeirra eigin forsendum og forðist að gera sömu kröfur til allra og steypa alla í sama mót. Þar af leiðandi verður Hjallastefnuskóli að leita allra leiða í skipulagi sínu og starfsháttum til að hafa fjölbreytileg verkefni og valkosti fyrir hendi. Hjallastefnukennarar fagna fjölbreytileikanum innan barnahópsins og telja ekki eftir sér að stíga skrefinu lengra til að mæta hverju barni; minnugir þess að skólinn er til vegna barna en ekki börnin vegna skólans. Þannig snýst allt um reynslu og nám nemandans en ekki kennslu kennarans og því breyta Hjallastefnukennarar starfsháttum sínum eftir aldri, þroska og getu „sinna barna“ hverju sinni.
Reglubundið gæðamat þarf að fara fram allt skólaárið til að auka líkur á að raunverulega sé unnið að því háleita marki að tryggja góða líðan, velferð og velgengni hvers barns sem skólanum er treyst fyrir. Á sama hátt verða Hjallastefnuskólar að leggja mikla áherslu á samvinnu við foreldra og fjölskyldur hvers barns til að skapa traust milli heimilis og skóla; ef skólinn nýtur ekki trausts foreldra munu kennarar aldrei ná að skapa óskorðuð tengsl við barnið og þar af leiðandi fær barnið ekki það gæðastarf í skólanum sem það á skilið.
Meðal þeirra leiða sem Hjallastefnuskóli fer til að mæta hverjum og einum sem best eru m.a. þessar:
- Hverju barni er mætt og heilsað á hverjum degi með jákvæðni; gleði og snertingu. Hver skóladagur einkennist af því að allt starfslið Hjallastefnuskóla notar hvert tækifæri til að sýna hverju eina og einasta barni athygli og kærleika í hlýju viðmóti, snertingu og orðalagi.
- Kynjaskipting er notuð til að tryggja jafnræði stúlkna og drengja og gefa báðum kynjum uppbót á þeim sviðum sem ekki tilheyra hefðbundnum kynjahlutverkum. Þannig hafa kynin farið á mis við ólíka þjálfun í samfélagi sem ekki hefur enn náð jafnréttismarkmiðum sínum.
- Aldursskipting í kjarna eða hópa er til að mæta jafningjaþörfum og skapa jafningjavináttu. Fastir hópar eru til að tryggja vináttu og samstöðu en vináttutengslin eru grundvallaratriði í velferð barnsins.
- Daglegir valfundir tryggja að ólíkur áhugi og vilji sé virtur og að barnið skynji mikilvægi sitt við skipulagningu dagsins.
- Þátttaka barna í skipulagningu hópatíma, áhrif á matseðlagerð og val um útivist gefur hverju barni skynjun á áhrifavaldi um aðstæður sínar.
- Fastur kennari/hópstjóri er heilt skólaár með sama hóp, ef unnt er, til að tryggja að hvert barn eigi sér öruggan málsvara og til að tryggja öllum börnum sérstaka athygli.
- Öll börn eru sérþarfabörn – en þurfi barn sérstaka aðstoð eða sérstök úrræði vegna þroskastöðu, hegðunar eða aðstæðna sinna að öðru leyti, metur skólinn með foreldrum hvernig staðið skuli að slíkri aðstoð. Engin ein leið er rétt, heldur ráða þarfir barnsins ferðinni samkvæmt mati þeirra sérfræðinga sem að málinu koma og úrslitavaldið er hjá foreldrum.
- Kennarar/hópstjórar fylgjast nákvæmlega með stöðu og framgangi hvers barns, skrá athuganir sínar á hverri önn á gátlista og kynna foreldrum niðurstöður sínar auk þess sem formlegt námsmat fer fram á ákveðnum sviðum.
- Kennarar/hópstjórar skipuleggja starf sitt með barnahópnum með skýrum námsmarkmiðum bæði aðalnámskrár og Hjallastefnunámskrár. Þeir meta og skrá starf sitt og velgengni hvers barns kerfisbundið eftir tiltekið tímabil. Foreldrum eru kynntar bæði áætlanir og niðurstöður á formlegan hátt. Fregnir af starfi og vinnu að markmiðum eru kynntar foreldrum með reglubundnum hætti.
- Öflugt foreldra- og fjölskyldusamstarf er fyrir hendi í Hjallastefnuskólum með heimaviðtölum, fjölskyldumorgnum svo og vinnuframlagi foreldra og fjölskyldu við skólann eftir nánara samkomulagi. Að auki miðlar skólinn tugum mynda í mánuði af hverju barni í leik og starfi á læstu heimasvæði.
- Á hverju skólaári fer fram viðhorfakönnun meðal foreldra til að fá álit þeirra til skólans og til að leita eftir tillögum þeirra til úrbóta. Að auki hafa foreldrar greiðan aðgang að því að leggja fram athugasemdir og tillögur til skólans.
- Tenging þessarar meginreglu er við frumstig einstaklingsfærninnar í kynjanámskrá Hjallastefnunnar eða í þjálfun í sjálfstæði, sjálfstrausti, öryggi og tjáningu.
Meginregla 2 – Starfsfólk
Hjallastefnunni er ætlað að stuðla að því að jákvæðni, gleði og kærleikur séu ráðandi öfl í samskiptum starfsfólks svo og í öllum samskiptum við börn og foreldra og aðra sem koma að málum skólans.
Meginregla tvö snýst um hið fullorðna fólk innan Hjallastefnuskóla. Hún setur öllu starfsfólki skýrar skorður varðandi framkomu og hegðun og er í reynd skuldbinding um að allt starfsfólk æfi sínar bestu hliðar; einsetji sér að verða betri manneskjur. Hér skilur oft á milli þess hvort starfsfólk finni sig innan Hjallastefnuskóla eða ekki – slík er skuldbindingin! Orsök þessarar meginreglu er hins vegar einföld; brothættar og óvarðar sálir ungra barna verðskulda ekkert nema hið besta og ógætileg hegðun hins fullorðna getur haft alvarlegar afleiðingar! Að auki er jákvæðniregla Hjallastefnunnar bæði viðurkenning á og vörn gegn þeim neikvæðu hliðum kvennamenningar sem getur náð að skjóta rótum þar sem aðeins annað kynið ræður ríkjum eins og er í starfi með ung börn.
Jákvæðni skal því grundvalla öll samskipti innan starfsmannahópsins sem og hvernig Hjallastefnukennarar birtast skjólstæðingum sínum, börnum og fjölskyldum þeirra; með jákvæðu brosi og orðum – af hlýju og kurteisi. Að auki velja Hjallastefnukennarar að sýna ávallt jákvæðni og ætla öðrum hið besta í samskiptum sínum við aðra aðila sem tengjast skólanum. Utan sem innan skóla veljum við að sýna jákvæðni og æfa glaðan hug og bjartsýni með bros á vör.
Hluti jákvæðrar framkomu er að sýna einnig hreinskiptni og ákveðni þegar þess er þörf – en án gremju eða annarra neikvæðra og niðurbrjótandi viðhorfa. Þannig tekur hinn jákvæði kennari af festu og öryggi á málum, segir af hreinskiptni það sem segja þarf eða kemur málunum í réttan farveg.
Margir þættir í skipulagi og starfsháttum Hjallastefnuskóla eru til þess fallnir að auðvelda starfsfólki jákvæða framkomu og þar má nefna eftirfarandi:
- Í Hjallastefnuskólum æfir starfsfólk þá hugsun að öllum beri ábyrgð á lífi sínu öllum stundum; hafi val um alla þætti og geti breytt hverju sem þau vilja ef þau velja að gera svo. Þannig velja öll hugsun sína, viðhorf, líðan og framkomu á hverju augnabliki og við erum einfaldlega það sem við veljum og æfum. Hjallastefnustarfið er skuldbinding um að ætla öðrum hið besta og gefa svo bæði sjálfri/sjálfum sér og öðrum hið besta á ábyrgan hátt.
- Allt starfsfólk gerir sér far um að heilsa bæði börnum og fullorðnum með glaðlegu brosi og vingjarnlegum orðum. Öll bjóða fram aðstoð sína og leyfa öllum sem til skólans leita, að finna að hver og ein(n) vill hvers manns vanda leysa. Engu máli skiptir hver á í hlut; öllum ber sama virðing og kurteisi, hvert sem erindið er. Þannig skapar starfsfólk hina hlýlegu og jákvæðu menningu sem skal einkenna alla Hjallastefnuskóla. „Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt …“.
- Starfsfólk gerir sér far um jákvæða og hlýlega orðanotkun hvort sem er í samskiptum við börnin, sín á milli eða við upplýsingagjöf til foreldra. Sérstaklega leggur starfsfólk sig fram þegar erfið mál eiga í hlut og mest reynir á hreinskiptni og heiðarleika sem settur er fram af heilindum og á jákvæðan hátt.
- Hjallastefnuskólar setja sér skarpar reglur um boðlega orðræðu innan skólans. Þannig er ávallt stefnt að ábyrgri og lausnamiðaðri umræðu og ekki er í boði að ræða af neikvæðni um börn, fjölskyldur þeirra eða annað starfsfólk. Þannig vandar starfsfólk sig að segja ekki meira um samstarfsfólk en þeir myndu segja beint við viðkomandi. Sömu kurteisi og virðingar er krafist í allri annarri umræðu s.s. þjóðmálaumræðu eða skoðanatjáningu um aðra skóla og skólastefnur enda virða Hjallastefnuskólar fjölbreytni og ólíkar skoðanir.
- Mikið er lagt upp úr ábyrgð og hreinskiptni samhliða jákvæðri afstöðu. Þannig eru boðleiðir innan skóla skýrar og virkar enda nákvæm vinnuferli til um hvar starfsfólk getur leitað úrlausnar með erfið mál eða athugasemdir um það sem betur má fara. Slíkum athugasemdum er ávallt vel tekið enda er góður skóli ekki sá sem engin mistök gerir, heldur sá sem vill ávallt gera betur og tekur því ábendingum fagnandi.
- Starfsfólk gerir sér far um að kjarna huga sinn og sundurgreina hvað þeim kemur við og hvað ekki. Þannig sýnir hver og ein/n störfum sínum þá virðingu að skipta sér fyrst og fremst af því sem kemur eigin starfi við og blanda sér ekki í annarra mál eða störf með skoðunum, orðum eða athöfnum nema velferð barna eða hugmyndafræði Hjallastefnunnar sé ógnað á einhvern máta. Þegar starfsmaður blandar sér í annarra málefni, eru málin rædd milliliðalaust við þann sem í hlut á eða leitað til yfirmanns sem tekur málið að sér.
- Öll gera sér far um að greina á milli einkalífs og hins opinbera starfsvettvangs og skilja þar á meðal eftir föngum allt eftir heima sem ekki á við í starfinu. Skólinn gerir sér þó vitaskuld far um að mæta þörfum starfsfólks af skilningi og sýna stuðning og stuðla að farsælu og auðugu einkalífi starfsfólks. Persónulegar þarfir starfsfólks mega þó aldrei ganga gegn hagsmunum skjólstæðinganna og er á ábyrgð skólastjórnanda að svo fari ekki.
- Hjallastefnuskólar leitast við að sýna öllu starfsfólki fyllstu sanngirni og réttlæti og eru öll velkomin og jafnrétthá til starfa óháð kyni, kynþætti og litarhætti, trúar- og stjórnmálaskoðunum, kynhneigð, menningu eða stöðu að öðru leyti. Ef tungumálaörðugleikar hamla starfsfólki í daglegum verkum, skal skólinn eiga frumkvæði að því að finna náms- og þjálfunarleiðir fyrir viðkomandi í íslensku.
- Jafnræðis skal gætt gagnvart starfsfólki á öllum sviðum; þar á meðal hvað varðar laun og önnur starfskjör, starfsframa og starfsaðstæður. Starfsfólk hafa aðgang að yfirmanni skólans með athugasemdir sínar og umkvartanir vegna allra mála og skulu ávallt leita eftir svörum eða aðstoð innan skólans áður en leitað er til annarra aðila. Allir hafa síðan áfrýjunarrétt til fulltrúa Hjallastefnunnar ef þurfa þykir sem vinnur þá að lausn málsins með yfirmanni viðkomandi skóla.
- Í félagslegum samskiptum einstakra starfsmanna eða starfsmannahópsins í heild utan vinnutíma gilda allar reglur Hjallastefnunnar um ábyrgð og virðingu milli fólks. Fagleg sjónarmið skulu ávallt ráða för í slíkum samskiptum fremur en persónulegar þarfir.
- Söngur, hreyfing og hlátur er í fyrirrúmi og gleðivekjandi starf einkennir alla skóladaga í Hjallastefnuskólum með virkri þátttöku barna og kennara. Nánar er kveðið á um jákvæðnistarfið með börnunum í kynjanámskrá Hjallastefnunnar, þ.e. í miðstigi einstaklingsþjálfunar sem snýst um þjálfun eiginleikanna jákvæðni, gleði, hreinskiptni og ákveðni.
Meginregla 3 – Umhverfi
Hjallastefnunni er ætlað að skapa samfélag innan hvers skóla þar sem jafnvægi, einfaldleiki og gagnsæi er ráðandi í dagskrá, umhverfi og búnaði og reglur eru sýnilegar og áþreifanlegar. Þannig gefst börnum skiljanlegt og viðráðanlegt umhverfi miðað við aldur þeirra, þroska og getu.
Einn grundvallarþátta Hjallastefnunnar er sú einfalda afstaða að skólastefna skuli leggja mesta áherslu á að skipuleggja og stjórna því sem hægt er að hafa áhrif á með formlegum hætti. Því setja Hjallastefnukennarar mikla orku og tíma í að ígrunda og skipuleggja notkun á öllu húsnæði og lóð skólans, kjarna umhverfi og búnað og sýna mikla nákvæmni við gerð og framkvæmd dagskrár. Mikil vinna er lögð í að skapa og viðhalda kjörnuðu umhverfi og stöðugt endurmat er í gangi til að tryggja að hver lausn sé ávallt sú besta á hverjum tíma. Með þessari skörpu og nákvæmu stýringu á öllum ytri þáttum skapar skólinn þann ramma eða umgjörð sem allt innihaldið mun litast af; þ.e. samskiptin, leikurinn, námið og kennslan mun aldrei verða betra en ramminn gefur tilefni til – en góður rammi eykur til muna líkurnar á góðu starfi. Þannig má nota stýranlega þætti til að styrkja þá óstýranlegu ef svo má að orði komast; auka líkur á jákvæðum viðhorfum, styðja við góðan vilja starfsfólks og auðvelda öllum faglegt starf.
Þaulhugsaðri stýringu umhverfisins er þannig ætlað að skapa jákvæðar afleiðingar fyrir allt skólastarfið. Það léttir öllum lífið og gerir bæði starfsfólki og börnum kleift að skilja hið daglega starf skólans, allir vita til hvers er ætlast og hvernig eigi að fara að til að ná árangri og sigrast á verkefnunum sínum stórum sem smáum.
Lykilatriði við skipulagningu skv. Hjallastefnureglum er að skapa einfalt, rósamt og áreitalítið umhverfi þar sem allt er merkingarbært og bæði börn og fullorðnir geta „lesið“ sig áfram og skilið og lært á aðstæður sínar á skömmum tíma. Umhverfinu er ætlað að vera einn af hornsteinum skólastarfsins og þjóna í reynd sjálfstæðu uppeldishlutverki. Til að svo megi verða, leggur Hjallastefnustarfsfólk m.a. áherslu á eftirfarandi þætti:
- Starfsfólk Hjallastefnuskóla skoðar fyrirliggjandi hugmyndafræði eins og hún birtist hverju sinni í meginreglum og kynjanámskrá til að samræma viðbrögð og vinnuaðferðir sínar og til að tryggja að allt starfsfólk taki samstillt á árum til að bera skólaskútuna áfram.
- Í skólum Hjallastefnunnar er unnið með handbók skólans á reglubundinn hátt og er hún endurskoðuð af starfsmannahópnum í upphafi hvers skólaárs. Þar eru m.a. skýrar starfslýsingar til að allt starfsfólk viti nákvæmlega til hvers er ætlast og hvernig það getur náð árangri; skráð vinnuferli fyrir daglegt starf, áætlanir sem taka til tiltekinna mála s.s. viðbrögð og úrvinnsla vegna áfalla og reglur og samþykktir skólans.
- Nýtt starfsfólk fær kennslu í handbók skólans og eru handleidd af reyndara starfsfólki á þeim kjarna sem viðkomandi tekur til starfa.
- Áhersla er lögð á valddreifingu bæði innan Hjallastefnunnar og innan hvers skóla. Öll uppbygging miðar því að sjálfbærum starfseiningum eða starfskjörnum sem hver um sig er sjálfráða í eigin málum og tekur ákvarðanir samkvæmt reglum skólans sem stjórnendur eru ábyrgir fyrir að settar séu.
- Afmörkun húsnæðis fyrir hvern kjarna í Hjallastefnustarfi lýtur sömu lögmálum um sjálfbærni; þ.e. að hver „eigi“ sitt rými; tvær til þrjár stofur sem gefa kost á ólíkum starfs- og leikmöguleikum, eigin inngang og geymslur þar sem því verður við komið.
- Hvert rými og hver starfseining (kjarni, hópar) fá heiti sem er merkingarbært og hefur skýran tilgang. Stofur heita t.d. eftir starfsmöguleikum og óumdeildir þættir s.s. kyn, aldur eða stafrófsröð getur ráðið heitum. Starfsfólk forðast að skíra t.d. hópa persónulegum heitum og ef ekkert óumdeilanlegt og merkingarbært heiti finnst, er gripið í merkingarlaus heiti.
- Öll svæði eru kyrfilega merkt með heiti og/eða tákni. Merkingar eru settar á gólf og veggi til að sýna hvar og hvernig allt eigi að vera. Rými barna á samverusvæðum svo og umferðarreglur eru límd/máluð á gólf af nákvæmni.
- Allar eigur hvers starfskjarna, bæði stórar og smáar og inni sem úti, eru merktar viðkomandi kjarna. Allir hlutir eiga sinn merkta stað í skápum og hillum og er öllu viðhaldið af umhyggju og virðingu.
- Skreytingar skv. persónulegum smekk starfsmanna eru hvergi í Hjallastefnuskólum, heldur er umhverfið áreitalítið og þrauthugsað. Mikilvægt er að undirstrika að skólinn, hversu heimilislegur sem hann er, er aldrei staðgengill einkaheimilisins heldur eru leikskólar og grunnskólar hluti hins opinbera lífs og þar þurfa börn að læra að vera til á allt öðrum forsendum en heima. Þar gilda líka allt önnur lögmál en á einkaheimilum; þar sem börn æfa einkalíf og byggja upp tilfinninga- og tengslagrunn. Því er gagnlegt að útlit skólanna birti ekki heimilislausnir.
- Veggir eru auðir nema þar sem ákveðið hefur verið að gefa rými fyrir mikilvæga og tilgangsríka þætti. Sýningar barna eru hafðar uppi skamman tíma.
- Dagleg umhirða, snyrtimennska og tiltekt er bæði uppeldislegt atriði og einnig forsenda þess að láta umhverfið vinna með kennaranum. Þannig taka starfsfólk og börn höndum saman og viðhalda kjörnuðu umhverfi.
- Bæði börn og starfsfólk klæðast skólabúningum til að styrkja liðsheildina.
- Dagskrá skólanna er höfð í góðu jafnvægi milli þeirra tveggja starfshátta sem móta dagskrána og ganga á víxl allan daginn. Annars vegar er hópastarf og kennsla þar sem kennari/hópstjóri leiðir undirbúið og skipulagt starf og hins vegar er leiktími og val hjá börnum sem hefst ávallt með valfundi þar sem börn velja sér leiksvæði eftir einföldu og auðskiljanlegu fyrirkomulagi.
- Tímasetningar eru einfaldar og auðlærðar, nákvæmni er sýnd við eftirfylgd þeirra Allir dagar eru í megindráttum eins og undantekningar og tilbreyting er tengd reglu s.s. söngfundir/gleðifundir á föstudögum þannig að festa og öryggi sé í fyrirrúmi fyrir ung börn. Starfsfólk sinnir sama verki langan tíma í senn og börn læra að treysta umhverfi sínu.
15. Tenging þessarar meginreglu er sérlega við frumstig og hástig félagslegu eiginleikanna; þ.e. virðing, hegðun, kurteisi og framkoma svo og vinátta, umhyggja, nálægð og kærleikur. Að auki tengist frumstig einstaklingsstyrkingar einnig þessari meginreglu; þ.e. sjálfstæði, sjálfstraust,
Meginregla 4 – Efniviður
Hjallastefnunni er ætlað að bjóða upp á leikefnivið og einföld námsgögn þar sem sköpun og ímyndun er í fyrirrúmi í fjölbreyttri reynslu hvers barns. Þannig skapar sjálfbjarga fólk eigið nám og leikheim með eigin lausnum og raunveruleikatengd verkefni eru í fyrirrúmi.
Leikefni og námsgögn þjóna sjálfstæðu uppeldishlutverki í lífi allra barna. Í þeirri gnótt leikfanga, barnabóka og barnatónlistar sem ríkir í öllum barnaherbergjum, fara Hjallastefnuskólar aðrar leiðir og bjóða upp á efnivið sem er viðbót við uppeldi einkaheimilanna. Þannig eru engin hefðbundin leikföng fyrir hendi, heldur er lögð áhersla á svonefnt leikefni eða efnivið sem nota má á hvern þann hátt sem leikendur kjósa hverju sinni. Leikföngin verða þá spennandi og eftirsóknarverð heima við enda hafa þau margháttað gildi fyrir þroska barna og heildarreynsla barna heima og í leikskólanum styður við ólíkar hliðar persónuþroskans.
Leikefni Hjallastefnuskóla hvetur til virkjunar ímyndunaraflsins og skapandi hugsunar. Börnin hljóta dýrmæta reynslu í að treysta á eigið hugarflug og eigin getu en ekki aðeins á verksmiðjuframleidda hluti. Leikir með hefðbundin leikföng og barnahandavinnu ýta í mörgum tilvikum undir getu barna til að leita að lausn sem er fólgin í hlutnum sjálfum og hefur verið úthugsuð fyrirfram. Það er ekki síður mikilvægt fyrir börn að öðlast reynslu í þeirri frumkvöðlahugsun að engin ein lausn sé til og að þeirra sé að skapa hvað sem er úr hinum einfalda efnivið skólans.
Leikefnið hamlar gegn samkeppni þar sem engir spennandi hlutir eru til að takast á um og eins minnkar samanburðarhyggjan þegar leikið og unnið er með efnivið sem hefur enga eina útkomu. Leikefni hvetur einnig til samskipta og samleiks og hentar því afskaplega vel í barnahópum.
Hin lausnamiðaða hugsun sem felst í notkun leikefnis og óbundins efniviðar tekur einnig til námsgagna barna og kennara. Þjálfun í að bjarga sér sjálf/ur og bíða ekki eftir að einhver komi og bjargi málum styður börn til sjálfstæðis og trúar á eigin getu. Sköpun eigin verka gefur sjálfstraust og löngun til að prófa og reyna og tilraunastarfinu fylgir aukinn kjarkur til að taka mistökum og æfa sig bara meira og meira.
Meðal starfshátta Hjallastefnuskóla á sviði sköpunar og ímyndunar má nefna eftirfarandi:
- Leikefni fyrir leiktíma barnanna er eingöngu efniviður sem þau geta bjargað sér með sjálf án aðstoðar kennara. Þannig eykst trú þeirra á eigin getu og hæfni og slíkt leikefni styður við þroska þeirra til sjálfstrausts og sjálfstæðis.
- Stærstur hluti svonefnds fastaleikefnis er með þeim hætti að hægt sé að nota það á mjög fjölbreytilegan hátt og að hvorki sé búið að úthugsa notkun né útkomu leiksins fyrirfram til að forðast að styrkja hugmyndir um fyrirframgefnar lausnir. Þannig eru m.a. kubbar, dýnur og púðar, heimagerður leir, einföld gögn til myndiðkunar svo og áhöld til útileikja meðal leikefnis leikskóla Hjallastefnunnar. Í barnaskólum Hjallastefnunnar bætast við flóknari leikjakostir auk áhalda til fjölbreyttrar myndiðkunar, smíða og sauma svo og heimagerðra spila.
- Ítarefni fyrir leiktíma eru viðbótaráhöld og nýr efniviður sem auðga reynslu barnsins hvað varðar skynjun, snertingu, nýsköpun og þróun, bæði einstaklingslega og í samskiptum. Hver skóli tryggir fjölbreytni í framlögn og notkun ítarefnis á hverju leiksvæði svo og gott aðgengi eldri barna að nýju og fersku ítarefni til að tryggja lifandi og skapandi leiktíma.
- Leikefni Hjallastefnuskóla er af skornum skammti skv. þeirri hugmynd að „minna geti verið meira“. Hlutamagn er þannig valið að annað hvort sé mjög auðvelt að skipta því jafnt milli leikþátttakenda eða þá að magnið útheimti að skiptast á af sanngirni.
- Hinn einfaldi efniviður og reglan um hófsemi og nægjusemi gerir miklar kröfur um umgengni og viðhald bæði barna og kennara til að tryggja að skólinn sé ávallt réttu megin við strikið með hið þaulhugsaða leikefni með allri þeirri reynslu sem börnin þarfnast.
- Öllum börnum er ávallt heimilt að koma með leikföng og bækur að heiman til að sýna vinum og vinkonum og kennarar stjórna notkun þess og geymslu yfir skóladaginn. Þannig tengja börnin heimili sitt og einkalíf við skólann.
- Efniviður fyrir hópastarf eða kennslustarf kennara fer eftir þeim verkefnum sem aldur barnanna krefst og sem skólinn leggur áherslu á hverju sinni. Sömu reglur eru í fyrirrúmi fyrir bæði börn og kennara hvað varðar skapandi starf. Þannig þurfa kennarar að sýna frumlega hugsun og vera fyrirmynd barna í að skapa starfið úr einföldum efnivið.
- Kennarinn er í starfi sínu af lífi og sál; tekur þátt í öllum verkum með börnum og lætur ávallt áhuga og gleði barna ráða för þó svo það kosti breytingar á áður skipulögðum áætlunum.
- Valin verkefni í hópatímum eru raunveruleikatengd og alvöru verkefni fyrir skólann, heimilin eða umhverfið. Þannig valdeflast börnin til að hafa áhrif á umhverfi sitt.
- Notkun bóka er ígrunduð vandlega. Hefðbundnar barnabækur eru ekki keyptar í Hjallastefnuskólum nema þá sem lesefni á barnaskólastiginu. Námsbækur á því stigi eru valdar af kostgæfni og eru aðeins notaðar að hluta til í kennslustarfinu. Lestur úr myndabókum fyrir börn er ekki iðkaður á hefðbundinn hátt, heldur er áhersla á þulur, ljóð og sögur; bæði ævintýri, þjóðsögur og barnasögur. Með þessu móti rækta Hjallastefnuskólar hina þjóðlegu sagnaarfleifð og gefa einnig börnum kost á að rækta ímyndunarafl sitt þar sem ekki er búið að túlka söguna með annarra myndum. Einnig er áhersla á spunasögur barna og kennara og eigin sögur hvers barns. Heimagerðar bækur eru mikið notaðar, bæði bækur einstakra barna svo og myndabækur úr umhverfi leikskólans fyrir yngri börnin. Kennarar gera sér hins vegar far um að heimsækja bókasöfn með hópum sínum og gefa börnum þar með kost á að æfa virðingu fyrir bókum og bóklestri svo og skynja og uppgötva undraheim bókanna. Eins eru Hjallastefnuforeldrar hvattir til að lesa fyrir börn sín á hverju kvöldi.
- Söngur er í hávegum hafður í öllum Hjallastefnuskólum og fjölbreytileg ljóð og vísur á góðri íslensku eru í fyrirrúmi. Fjölbreytni er einnig í fyrirrúmi í tónlist og er klassísk tónlist, heimstónlist og svo íslenskur tónlistararfur í fyrirrúmi fremur en barnadægurlög. Vandað er til tónlistarnotkunar og ekki höfð síbyljutónlist sem bakgrunnur. Skynjun barna og upplifun á tónlist er studd með heimsóknum tónlistarfólks við valin tækifæri.
- Þessi meginregla eins og aðrar skerpir á kynjanámskránni og þá sérlega frumstig einstaklingseiginleika; sjálfstæði, sjálfstraust, sjálfsvitund og tjáning svo og frumstig félagseiginleika; virðing, hegðun, kurteisi og framkoma.
Meginregla 5 – Náttúra
Hjallastefnunni er ætlað að kenna börnum að skynja og njóta náttúrulegs umhverfis og virða náttúruna með nýtni, nægjusemi og hófsemi svo og með umhirðu og endurvinnslu.
Í öllum Hjallastefnuskólum er útistarf og útikennsla í hávegum og sérlega er sótt í ósnortna náttúru þar sem því er viðkomið. Möguleikar í inniveru barna eru alltaf takmarkaðir af skömmtuðu rými byggingarinnar en úti er ekkert sem takmarkar nema himinhvolfið sjálft. Því ber að forðast háar girðingar sem takmarka útsýnið. Grundvallaratriði þessarar meginreglu er að börn njóti þess að vera úti og skynji árstíðir og veðurfar, gróður og dýralíf og uppgötvi þannig þá einstöku fegurð sem náttúran sjálf skapar. Jafnframt njóta þau friðarins og þess samhljóms sem því fylgir að vera í snertingu við mold og gras, vatn og grjót!
Í Hjallastefnuskólum er lögð áhersla á náttúrulegan efnivið, þeir hlutir sem börnin vinna með, eru að mestu úr náttúrulegum efnum og allir litir innan dyra eru mildir jarðarlitir. Allir kjarnar og skólar taka sitt nánasta umhverfi í fóstur og annast bæði umhirðu og ræktun. Af virðingu við náttúruna þjálfa skólarnir svo hófsemi og nægjusemi og láta sér duga lítið og læra að una við sitt. Grasið er ekki grænna „hinum megin“ og öllum er hollt að láta sig vanta eitthvað og láta á móti sér öðru hvoru. Nægjusemin eykur því einbeitingu og minnkar spennu og væntingar. Endurvinnsla er svo hluti af námskrá hvers skóla, í mismiklum mæli eftir aðstæðum á hverjum stað.
Meðal annarra starfsþátta sem styðja þessa meginreglu, má nefna eftirfarandi:
- Gert er ráð fyrir útikennslu og útistarfi í dagskrám allra skóla og kjarna. Annars vegar er frjálst val barna um að nýta leiktímann sinn úti til að skapa jákvætt viðhorf gagnvart útileikjum og hins vegar er skipulagt hópastarf reglubundið í hverri viku; allt frá daglega til 2-3 í viku.
- Tryggt er að aldrei séu margir á útisvæði skóla hverju sinni með takmörkun þess fjölda sem getur valið útisvæði í senn. Þannig skapast gott rými fyrir alla sem dregur úr hættu á átökum og öðrum erfiðleikum í samskiptum.
- Áhersla er lögð á að hver kjarni og hópur eigni sér sína staði á útisvæðum og í nágrenni skóla. Þar má nefna stefnumóta- og leyndarmálastaði svo og svæði sem eru tekin í fóstur til umhirðu; ruslatínslu, reita arfa, planta gróðri o.s.frv.
- Kennarar sýna skapandi vinnubrögð til að fá sem mesta fjölbreytni í útistarf. Útieldun og nestisferðir, leiksvæði flutt út á góðum dögum og húsa- og bílaþvottur og gluggaþrif gæða útistarfið nýjum möguleikum.
- Gróðurræktun fer fram á svæðum sem eru afmörkuð frá leiksvæðum á tryggilegan hátt til að allt leiksvæðið sé ávallt heimilt til leikja og bönn ríki ekki á leiksvæði.
- Áhöld til útiverka og ræktunar eru hluti af efnivið til hópastarfs.
- Hófsemi er aðalsmerki Hjallastefnustarfs; hlutamagni er stillt í hóf og innkaup eru gerð að vandlega ígrunduðu máli. Gert er við gamla hluti fremur en að kaupa nýja.
- Efniviður úr náttúrulegum og/eða endurvinnanlegum vörum er ávallt valinn þar sem því verður við komið.
- Vandlega er gætt að því að leikefni, litir og föndurvörur séu vistvæn að öllu leyti; framleidd úr völdum og öruggum efnum og innihaldi ekki varasöm efni að neinu leyti. Einnig er leitast við að kaupa vörur unnar í heimalandi eða landshluta skólans og athugað er að framleiðsluaðferðir uppfylli ströngustu reglur um mannúðleg framleiðsluferli.
- Öll mötuneyti sem framleiða mat fyrir Hjallastefnuskóla, hvort sem þau eru staðsett innan skóla eða ekki, lúta ströngum reglum og stöðlum um gæði matar. Þar má nefna skýr ákvæði um notkun aukaefna, takmörkun fitu og hlut trefja og grænmetis í fæðu barna og eru manneldissjónarmið Lýðheilsustöðvar leiðarljós mötuneyta okkar.
- Að venju tengjast allir námsþættir kynjanámskrár þessari meginreglu en sérstaklega þjálfast hástig félagslegra eiginleika vel; þ.e. vinátta, umhyggja, nálægð og kærleikur en einnig hástig einstaklingseiginleikanna; kjarkur, kraftur, virkni og frumkvæði.
Meginregla 6 – Samfélag
Hjallastefnunni er ætlað að þjálfa aga og hegðun á jákvæðan og hlýlegan en um leið ákveðinn og hreinskiptinn hátt. Með nákvæmni og festu verður taminn vilji leiðin til öryggis og frelsis fyrir alla í rósemd og friði innan skólasamfélagsins og síðar til ábyrgrar þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.
Hegðunarkennsla Hjallastefnuskóla byggir á þeirri kenningu að agi sé einfaldlega að fylgja reglum sem eru þekktar, skýrar og auðskiljanlegar og er fylgt eftir af sanngjörnum og ákveðnum aðila sem er sjálfum sér samkvæmur við eftirfylgnina. Með síendurteknum æfingum; beinni þjálfun í góðri hegðun í öguðu umhverfi fær barnið reynslu og hæfni sem það yfirfærir í sjálfsaga og þar með öðlast barnið vald yfir aðstæðum sínum – það getur stjórnað sér sjálft! Slík þjálfun er grundvallaratriði fyrir tilvist í samfélagi þar sem ábyrg framkoma og þátttaka allra eftir réttum leikreglum grundvalla raunverulegt lýðræði.
Agi gefur öllum börnum öryggi og tryggir rétt allra. Agi gefur einnig frelsi því í öguðu skólaumhverfi gefst kennurum kostur á að sleppa tökunum og stjórninni þegar það á við og gefa þá nemendum sínum lausan tauminn sem áfram þjálfar sjálfsaga. Að auki gefur agi rósemd og frið og minnkar öllu betur hættu á spennu, streitu og ótta sem veldur ofbeldi og einelti.
Hegðunarkennsla verður að vera heiðarleg og krefur kennara um myndugleika til að valda nemendastjórnun af festu og ákveðni en um leið af jákvæðni og umhyggju. Allt annað eru svik við börn sem eru á félagslegu næmiskeiði og þarfnast þess að æfa og temja vilja sinn; þann frumkraft sem þau koma með í farteskinu til að takast á við lífið. Slík tamning er forsenda þess að viljinn nýtist þeim sem jákvæður drifkraftur í stað þess að vaxa villt yfir höfuð þeim í valdaátökum við umhverfi sitt þar sem hinn fullorðni axlar ekki ábyrgð á hlutverki sínu eða að vilji barns sé brotinn með ofstjórnun eða harkalegu viðmóti og barnið fær því ekki að þjálfa jákvæða viljabeitingu undir ákveðinni en jákvæðri handleiðslu.
Hegðunarkennsla Hjallastefnuskóla felst m.a. í eftirtöldum þáttum:
- Megináhersla í starfsháttum felst í að fyrirbyggja ágreining og koma í veg fyrir hegðunarslys. Efniviður er þannig settur fram að annað hvort sé nægilegt magn fyrir alla eða að auðvelt sé að skiptast á til að auka líkurnar á að öllum takist að ráða við aðstæður sínar. Þær stundir dagsins eða aðstæður sem skapa erfiðleika eru endurskoðaðar og breytt eftir ígrundun og kjörnun á eðli vandans þar til góður árangur fæst.
- Skýrar reglur gilda um umgengni og samskipti. Sumar reglur eru fastareglur sem ber að fylgja og gegna, aðrar reglur eru settar í samvinnu fullorðinna og barna og ræddar og lærðar. Reglum má breyta og kjarnar æfa með eldri börnum hvernig það er gert og leita kerfisbundið eftir áliti barnanna á réttlæti og réttmæti reglnanna.
- Hjallastefnukennarar styrkja jákvæða hegðun og framkomu barna á afgerandi hátt með hrósi og með því að beina athygli að öllu sem tekst og gengur vel. Í þessu skyni koma kennarar sér upp hugtakasafni fallegra hrósorða og uppörvandi orðatiltaka (sjá um jákvæðni í kynjanámskrá). Jafnhliða er snerting notuð til að gefa hin jákvæðu skilaboð þegar vel gengur.
- Kennarar bregðast hratt og heiðarlega við öllum reglubrotum með skýrum skilaboðum og viðeigandi aðgerðum; allt frá áþreifanlegum skilaboðum til einstakra barna yfir í umræður og svo breytingar á þeim aðstæðum sem leiddu af sér hegðunarmistök viðkomandi.
- Ef beita þarf viðurlögum er barn aldrei sett eitt á einhvern stað, heldur tekur kennarinn á málum með barninu. Ef beita þarf sömu viðurlögum margsinnis, eru það skilaboð um að aðferðin hafi ekki virkað og ber þá að gaumgæfa málið að nýju og finna aðrar og árangursríkari leiðir.
- Ekki segja ekki! Kennarar forðast hin hamlandi „ekki“ skilaboð sem beina athyglinni að mistökum og þjálfa sig þess í stað í að gefa skýr skilaboð um allt sem á að gera og gerast og athyglin er því á sigrum og tækifærum.
- Ytri umgjörð og starfsrammi Hjallastefnuskóla er hegðunarþjálfun. Allt umhverfi sýnir greinilega hvar húsgögn, leikefni og smáhlutir eiga að vera. Þannig er merkt á gólfum á áþreifanlegan hátt hvar allur búnaður á að vera frá hinu smæsta til hins stærsta. Svæði eru afmörkuð og meira að segja leikrými hvers barns við borð ef á þarf að halda. Skápar eru kjarnaðir og þaulmerktir að innan sem utan. Allir hlutir, smáir sem stórir eru merktir eiganda og eiga sinn stað, merktan hlutunum sínum.
- Sömu aðferðir eru nýttar til að sýna hvaða hegðunar er krafist og hvernig börn geta fylgt hinum sýnilegu og áþreifanlegu umferðarreglum í skólasamfélaginu. Umferðarörvar sem sýna hægri umferð eru á gólfum, á samverusvæðum barna eru límd eða máluð merkt rými fyrir hvert barn og biðpláss eru sett á svæði þar sem börn safnast saman á skiptitímum.
- Kennarar stýra umferð barna um skólann og eru raðir af fjölbreytilegri gerð nýttar til að tryggja agaðar og hljóðlátar aðferðir til að komast frá einum stað til annars. Kennarar hvika ekki frá barnahópi sínum, hvort sem í hlut á hópastarf eða leiktímaumsjón inni eða úti.
- Við nemendastýringu beita kennarar gjarnan vali til að forðast bein átök við vilja barna og þá sérlega á sviðum sem Hjallastefnan metur innan mannhelgi hvers barns. Þannig er vilji barna aldrei þvingaður varðandi t.d. mat eða klæðnað en vali beitt sem millileið.
- Í dagskrá hvers Hjallastefnuskóla er daglegt val reglubundið yfir starfsdaginn. Þar fá börn á öllum aldri tækifæri til að æfa viljann og ákveða leiki eða nám fyrir næstu starfseininguna. Valið fer fram á valfundi þar sem þau æfa þrjú grundavallaratriði; að vita vilja sinn, koma honum á framfæri á jákvæðan hátt og loks að taka mótlæti ef þau komast ekki að í þetta skiptið og þurfa að velja annan kost.
- Kennarar leita álits barna á starfi skólans; m.a. taka börnin þátt í að móta áætlun fyrir starf í hópatímum og eins er þeim boðið að hafa áhrif á matseðlagerð eða koma athugasemdum á framfæri um starfsemina. Eins er leitað reglulega eftir að þau tjái líðan sína og álit á skólanum; t.d. hvernig þeim gekk með samskiptin á valtíma eða hvernig þeim leið þegar þau komu í skólann.