Skip to content

Margrét Pála hittir Carol Gilligan í Cleveland

Þegar Magga Pála stundaði nám við Fósturskóla Íslands í byrjun 9. áratugarins, kynntist hún nýútgefinni bók Carol Gilligan, In a Different Voice. Carol Gilligan, þroskasálfræðingur og (á þeim tíma) aðstoðarprófessor við Harvard Graduate School of Education, hafði unnið mikið og náið með Lawrence Kohlberg. Kohlberg hafði þeyst upp á stjörnuhiminn þroskasálfræðinnar með kenningar sínar um Stig siðferðisþroska árið 1958, byggða á kenningum Jean Piaget um siðferðilega dómgreind hjá börnum. Kohlberg byggði kenningu sína á rannsóknum og viðtölum við drengi. Carol Gilligan gagnrýndi þessa annmarka, enda taldi hún að það væri nauðsynlegt að taka líka viðtöl við stúlkur og í bók sinni In a Different Voice tekst hún á við kenningar Kohlbergs. 

Carol Gilligan og bók hennar In a Different Voice hafði mikil áhrif á Margréti Pálu, unga móður í fósturnámi. Á þessum árum, þegar upplýsingaflæði og hnattvæðing var ekki komið á sama flug og nú er, má segja að Gilligan hafi svipt hulu frá augum Möggu Pálu og hún sá skýrar en áður ójafnvægið sem ríkti milli kynjanna. Í kenningum Kohlbergs voru drengir samnefnari allra barna. Þetta kynnti undir réttlætiskennd hennar og var meðal margs annars til þess að blása henni kjark í brjóst til að rata þann þyrnum stráða veg sem hún átti fyrir höndum í mótun og uppbyggingu Hjallastefnunnar, með jafnrétti, lýðræði og sköpun að vopni. 

Núna í júní þá var Carol Gilligan  keynote speaker á ráðstefnu ICGS (International Coalition of Girls Schools) í Cleveland í Bandaríkjunum.  Magga Pála og Kristín Cardew lögðu land undir fót til að hlusta á hina mögnuðu Carol Gilligan. 

Í Cleveland fékk Magga Pála loksins tækifæri til að hitta örlagavald sinn og átrúnaðargoð sem hafði mótandi áhrif á hana sem og þróun hugmyndarfræði Hjallastefnunnar.