Skip to content

Konur eiga að vera með á myndinni

„Við ætlum ekki að vera í skugga karla, við erum okkar eigið ljós,“ segir Regína, ein af þeim stelpum sem útskrifuðust úr 8 ára bekk í gær með stæl. Þær hafa fræðst um kvennakraft.

Jafnrétti á ávallt stóran sess í öllu starfi innan Hjallastefnunnar, enda ein af grunnstoðum stefnunnar ásamt kærleika og sköpun. Verkefnin sem valin eru í leik og starfi eru skipulögð með það í huga að brjóta upp staðalmyndir kynjanna, sporna gegn kynjaeinokun og til þess að lofta út bleikri og blárri slikju. Kynjanámskrá Hjallastefnunnar er ætlað að vera verkfæri í uppeldisstarfi þar sem öll börn eiga að fá sín notið á eigin forsendum, þannig þjálfum við bæði félagsfærni og einstaklingsfærni kerfisbundið. Eðli málsins samkvæmt þá geta verkefnin og aðferðirnar verið ólíkar og fjölbreyttar, þannig þekkja flest sem starfa innan Hjallastefnunnar tilhneigingu góðra kennara sem víxla hefðbundnum kynjahlutverkum í sögum og ævintýrum; þannig bjargar oft hraust prinsessa viðkvæmum prinsum sem finna sig í ógöngum nú eða kvenkennari borar í vegg og mundar kúbein. Þetta eru fastar sem við könnumst við. Öll börn fá þjálfun í „sjálfsást“ og horfa í spegil og segja fallega hluti við sjálf sig, tækifæri til þess að þjálfa sig í framkomu, áræðni, aga og hugrekki. Öll börn fá tækifæri til þess að æfa viljavöðvann sinn og blómstra á eigin forsendum. Skólinn er umhverfi þar sem hver einstaklingur á að fá notið þess að þroskast og þróast, börn eiga að geta spurt krefjandi spurninga og mætt þeirri virðingu að leitast sé við að svara frumlegum spurningum þeirra vel. 

Góðar vinkonur á átta ára stúlkna kjarna í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík hafa lengi velt hlutunum fyrir sér og átt í innihaldsríkum og krefjandi samræðum við kennara sína, Eddu Huld og Emmu. Þessar átta ára stúlkur ætla sér stóra hluti í framtíðinni og sjá það sem sameiginlegt verkefni að sporna gegn misrétti í íslensku samfélagi. Þær hafa gert með sér samkomulag; þær ætla sér að taka pláss í lífinu, þær ætlast til þess að hlustað sé á þær og þær ætla sér að ná áheyrn með kærleikann að vopni. Alveg þykir stúlkunum glórulaust til þess að hugsa stúlkur hafi, á árum áður, ekki haft sama aðgengi að menntun og að í nútímasamfélagi gerist það enn að konur fái ekki sömu laun og fyrir sambærileg störf. Þær hafa unnið að verkefnum um sögu kvenna og réttindabaráttu, skoðað gamalt myndefni og kynnt öflugar kvenhetjur hvor fyrir annarri.

Ákveðin uppskeruhátíð þessa víðfema verkefnis var við skólaslit Barnaskólans þar sem stúlkurnar fluttu lag kvennasveitarinnar Sister Sledge, We are family, frá árinu 1979. Höfðu þær vinkonurnar endurskrifað texta lagsins og aðlagað. Lagið heitir í þeirra flutningi „Samkomulagið“ og neðar má sjá textann í heild sinni. Undir lok flutnings Samkomulagsins frumsýndu stúlkurnar eigin hönnun á bolum sem þær höfðu saumað út á, þar höfðu þær saumað setninguna „konur eiga að vera með á myndinni. Hver vinkona hafði frjálsar hendur með útfærslu og segja má með sanni að útkoman hafi verið glæsileg. Þessi gjörningur varð til þess að foreldrar og fjölskyldur stúlknanna fylltust stolti og ekki er laust við að tár hafi vætt hvarma þennan fallega dag á Klambratúni.

Þessum stúlkum eru allir vegir færir og það sýndu þær og sönnuðu, þær fara út í sumarið – og lífið, sjálfstæðar og gagnrýnar og uppfullar af hugmyndum um það hvernig bæta má samfélag okkar.

Samkomulag 

Við erum fjölskylda.
Systur mínar eru með mér
Við erum fjölskylda
standið upp og syngið með mér

Við erum fjölskylda
allar eru vinkonur
Við erum fjölskylda
öll við stöndum upp og dönsum
Öll sjá að við stöndum saman
er við göngum hjá

HÁTT
Og við svífum hátt eins og fuglar
og við getum allt.
VIÐ
(við) erum metnaðarfullar og ætlum að fá sömu laun og kall
og það er alveg á hreinu
Við erum með á myndinni!!

Við erum fjölskylda
og við stöndum allar saman
Við erum fjölskylda
og við erum sammála

Við erum fjölskylda
allar systur mínar með mér
við erum fjölskylda
og við erum frábærar

Öll sjá að við stöndum saman
er við göngum hjá
HÁTT
Og við svífum hátt eins og fuglar
og við getum allt.

VIÐ
(við) erum metnaðarfullar og ætlum að fá sömu laun og kall
og það er alveg á hreinu
Við erum með á myndinni!!
Við erum fjölskylda
og við munum taka pláss
Við erum fjölskylda
og við erum frábærar

Við erum fjölskylda
og við munum taka pláss
Við erum fjölskylda
og við erum frábærar
Við erum fjölskylda
og við munum taka pláss

Við erum fjölskylda
og við erum frábærar