Algengar spurningar og fróðleikur
Öll skólabörn Hjallastefnusamfélagsins, frá 12 mánaða til 12 ára klæðast skólafötum í skóladeginum.
Þetta er einn af fjölmörgum þáttum í okkar úthugsuðu stefnu sem settur er fram til að tryggja jafna stöðu hvers og eins barns sem okkur er falið. Allt starfsfólk mætir einnig til vinnu í skólabolum, með val um treyjur, vesti eða ullarpeysur og þannig myndast ákveðin liðsheild sem börn og starfsfólk samsamar sig við.
Þegar við ákváðum að taka inn skólaföt á sínum tíma var grunnhugsunin sú að valdefla börnin á þeirra eigin forsendum, út frá styrkleikum þeirra og persónueinkennum. Til að það mætti raunverulega takast var nokkuð ljóst að það þyrfti að setja félags-/efnahagslega stöðu þeirra út fyrir svigann og voru skólafötin m.a. tilvalið áhald til þess.
Með skólafötunum æfast börnin í þeirri hugsun að koma „með sig sjálf“ í skólann og fókusinn flyst frá utanaðkomandi áhrifum yfir á eigin hæfni, getu og áhugasvið. Þannig birtast og styrkjast einstaklings sérkenni barnanna og persónuleikinn yddast til. Að sama skapi sjá þau önnur börn í skólaumhverfi sínu fyrir það sem þau eru, en ekki fyrir þá utanaðkomandi þætti sem hugsanlega staðsetja þau í stigveldi samfélagsins. Skólafötin gera uppbótarvinnuna okkar líka skarpari og auðveldar okkur að skræla burt útlitsdýrkun og kynjaðar staðalmyndir.
Við lítum fyrst og fremst á skólafötin sem vinnuföt; þau eru þægileg og það er auðvelt að klæða sig í þau og úr. Jafnframt eru sniðin þannig úthugsuð að fötin auðveldi litlu fólki að takast á við áskoranir daglegs lífs, en þau eru líka notaleg í leik og starfi úti sem inni. Útlitslega eru skólafötin kynjahlutlaus og samanstanda af joggingbuxum, leggings, bómullarbolum, hettupeysum og ullarpeysum. Fötin eru ekki alveg þau sömu í leik- og barnaskólunum okkar og á miðstiginu er þau líka eilítið öðruvísi til að auka á fjölbreytileika.
Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er það höfuðatriði að við séum öll í sama liði í Hjallastefnunni og að hvert og eitt barn upplifi sig einstakt og dýrmætt.
Já, það er hægt að kenna vináttu!
Ætla mætti að hvítvoðungur í þessum heimi viti um það bil jafn mikið um vináttu og um stærðfræði. En einhverra hluta vegna virðist því þannig farið að við getum kennt stærðfræði í áraraðir en kjósum að verja litlum sem engum tíma í það að kenna vináttu. Sem er merkilegt, þar sem að gagnreyndar vísindalegar aðferðir hafa sýnt fram á það að heilbrigð tengslamyndun og vinátta nærir manneskjuna frá fæðingu til dauðadags.
Rannsókn sem framkvæmd var af Mayo klíníkinni í Bandaríkjunum sýndi fram á það að heilbrigð vinasambönd hafa margvísleg jákvæð áhrif á manneskjuna. Til að mynda eykur vinátta á tilfinningu um tilgang með lífinu, og tilfinninguna um að tilheyra (e. sense of belonging). Vinátta eykur á vellíðan, hamingju og dregur úr streitu og kvíða. Vinátta hefur samlegðaráhrif með sjálfstrausti og spilar stóra rullu í að byggja undir líkamlega og andlega heilsu.
Því er oft fleygt fram að vináttan sé sérstaklega mikilvæg í bernskunni, þegar athygli barna fer að færast frá því að beinast einvörðungu að foreldrum sínum og fer að beinast að jafningjum. Félagsvísindi hafa sýnt fram á það að á þessum kaflaskilum fari börn að átta sig á strengjunum í félagslega netverkinu, fari að skynja samfélag og jafnvel goggunarraðir innan þess. Þetta getur verið flókinn tími fyrir unga einstaklinga, það er að segja tími þar sem félagslegar tilraunir geta farið vel en magalendingar eru algengar líka með tilheyrandi vonbrigðum og sársauka. Slíkar félagslegar tilraunir þar sem tilraunastofan er samfélagið, í sinni víðustu og þrengstu mynd, geta valdið mismiklum skaða.
Í bernsku sinni finna börn til aukinnar þarfar fyrir vináttu, þau umgangast jafnaldra stóran hluta dags og við þær aðstæður verða tilfinningaleg tengsl, vinátta. Vinátta lýsir ástandi, sérstakri umhyggju sem einstaklingur sýnir annarri manneskju. Vinátta er þannig samband aðila á milli sem þarf réttar aðstæður til þess að blómstra.
Öll sem starfað hafa með börnum og jafnvel verið í hlutverki foreldra þekkja öll til fjölmargra tilfella þar sem að árekstrar í vináttu hafa valdið erfiðleikum í samskiptum. Oftar en ekki fellur það í skaut fullorðinna að fara í tilfinningalega eftirvinnslu sem getur verið áskorun. Þetta gerist meðal annars vegna þess að vinátta er ekki kennd formlega, eins og til að mynda stærðfræði. Sumu fólki fallast hendur við tilhugsunina um að kenna vináttu, en er það raunverulega flóknara viðfangsefni en að kenna tungumál? Sú spurning er hugsanlega þess eðlis að við svörum henni ekki, en svarið við spurningunni „er hægt að kenna vináttu“ ætti alltaf að vera, og er, já! Það þarf hæfni til þess að stofna til vináttu, til þess að halda henni við og hlúa að henni og eins þarf að tileinka sér hæfni til þess að hverfa frá vináttu þegar hún er farin að vera óheilbrigð. Á þessum hæfnisviðum hvílir svo óendanlega margt í okkar samfélagi. Platónsk vinasambönd gera það, sem og ástarsambönd, sambönd sem til eru komin vegna atvinnu, öll sambönd og félagsleg samskipti byggja á því að það sé sáttmáli um þau.
Höfum það hugfast að við erum öll útsett fyrir fyrirmyndum og félagsmótun. Þannig mætti hæglega færa rök fyrir því að séu börnum ekki kennd samskipti þá munu þau grípa til þess sem þau eru útsett fyrir annarsstaðar í menningu, þannig er líklegt að fyrirmyndirnar komi úr afþreyingarefni svo sem sjónvarpi, kvikmyndum og samfélagsmiðlum. Eins er líklegt að þau muni horfa til jafningja sem ekki endilega eru bestu fyrirmyndirnar.
Í skólum er hægt að fræða börn um vináttu, það er hægt að segja sögur, syngja söngva og ræða vináttuna sem fyrirbæri. Börn geta lært það undir eftirliti fullorðinna fagaðila að það er ekki vinalegt að hrinda, æpa eða uppnefna. En vináttan sem slík lærist best í gegnum leik og samvistir þess vegna er svo óendanlega mikilvægt fyrir börn að eiga rými til þess að leika sér. En eins og fræðikonan Caron Carter heldur fram þá má, með góðu skipulagi, vel nýta kennslustundir til þess að læra um vináttu í gegnum leik. Þannig má tala um samvinnuverkefni og leikjamiðað nám sem kjörinn vettvang til þess að skapa kærleiksríkt rými sem nærir vináttuna. Aldrei skyldi heldur vanmeta samverustundir hópa, til að mynda við hádegisverðarborðið eða á skemmtifundi á samverumottu, þar sem börn fá notið þess að eiga í samskiptum með góðum hópstjóra.
Megin ástæðan fyrir því að stefnan okkar fór að mótast á sínum tíma var hin hnattræna samfélagsskekkja sem misrétti kynjanna er.
Margrét Pála, langt á undan sinni samtíð, áttaði sig á því að það sem hélt misréttinu kyrfilega föstu í hjólförunum, var að miklu leyti staðalmyndir kynjanna og rót þeirra. Þegar hún tók við skólastýrustarfi í Steinahlíð árið 1981, og fékk þar með akademískt frelsi til að móta skólastarfið, varð misrétti kynjanna fókuspunktur hjá henni. Hún fór að taka eftir því að í kynjablönduðum hópum fylgdust börnin með því hvernig “hitt kynið” hegðaði sér og brást við, og lærðu þannig hvernig “þeirra kyn” ætti ekki að hegða sér. Þarna varð öfug speglun á kynin sem olli því að hin kynjaða hegðun ýktist. Drengirnir urðu háværari og útkljáðu málin jafnvel með handalögmáli og orðbragði á meðan stúlkurnar létu lítið fyrir sér fara og notuðu grát-, kjökur- og fýlustjórnun. Við þetta mátti ekki búa og Margrét Pála sá að til þess að þessi öfuga speglun ætti sér ekki stað yrði að kynjaskipta hópunum. Þannig hófst kynjaskiptingin.
Margrét Pála og samstarfsfólk hennar fóru fljótlega að prófa sig áfram með kynjaskiptinguna í leikskólanum og sáu þau fljótt að hörguleinkenni kynjanna, eins og Margrét Pála kallaði hina ýktu kynjuðu hegðun, minnkaði snarlega, bara við það eitt að taka kynin í sundur. Hún áttaði sig á því að í kynjablönduðu samfélagi, þar sem öfug speglun var alltaf til staðar, þar grasseruðu staðalmyndirnar, enda börn almennt snuðuð um ákveðna mannlega eiginleika í ljósi hins líffræðilega kyns síns. Skorturinn á þessum þáttum, og félagsleg skilyrðing, kom í veg fyrir að börnin fengju tækifæri til að þroskast sem heilar manneskjur, þar sem drengir áttu að varast að vera “stelpulegir” og að sama skapi voru ákveðnir “karllægir” eiginleikar ekki við hæfi fyrir stúlkur.
En betur mátti ef duga skyldi, því Margrét Pála vissi það, að það eitt að kynjaskipta væri ekki nóg, heldur þyrftu kynin að fá tækifæri til að rækta, þroska og æfa þá mannlegu eiginleika sem þau voru samfélagslega snuðuð um. Þannig varð uppbótarvinna Hjallastefnunnar til, en hún er órjúfanlegur þáttur í okkar kynjaskipta skólastarfi, sem og hin daglega kynjablöndun, þar sem kynin hittast og blómstra saman, í daglegum verkefnum, æfingum og leikjum.
Hefðbundin leikföng eru ekki til staðar í Hjallastefnuskólum. Okkar hugsun er sú að opna leikefnið sé viðbót við leikföngin sem algeng eru á heimilum barnanna, og að þannig aukist þroskamöguleikar barnanna með stærri og fjölbreyttari snertifleti þegar kemur að ólíkum efniviði heima fyrir og í skólanum.
Þar sem gott er að handleika og vinna með opna efniviðinn á persónubundinn hátt þá eru möguleikarnir á notkun, útfærslu og útkomu óendanlegir. Það eitt eflir gagnrýna hugsun og lausnamiðun, nýsköpun og skapandi hugsun, auk þess sem barnið fær góða æfingu í fín- og grófhreyfingum þegar það hnoðar leirinn, byggir úr kubbum, mokar í sandinum, litar, teiknar og málar o.s.frv.
Fleiri augljósir kostir opna efniviðarins eru m.a. þjálfun félags- og tilfinningagreindar í gegnum samvinnu og þegar börnin deila hugmyndum hvert með öðru, auk þess sem hann hamlar gegn samkeppni. Eins eflist virkni barnanna og trú þeirra á eigin getu þegar þau ná að útfæra hugmyndir sínar frá hugmynd í afurð.
Þar sem opni efniviðurinn hefur enga eina fyrirfram gefna lausn fellur hann svo einstaklega vel að þörfum og getu hvers og eins barns þannig að hann þjónar áhuga, menningu og þroska barnsins, nákvæmlega þar sem það er statt, en á sama tíma virkar hann líka ögrandi og hvetjandi fyrir barnið til að taka áhættu og teygja á sköpunarmættinum og kjarkinum. Þar fyrir utan er allur opinn efniviður, eðli sínu samkvæmt, aldurssvarandi, þ.a. í aldursblöndun læra börnin hvert af öðru og hóparnir þjappast saman.
Getan til að halda einbeitingu og athygli, og færnin til að draga fram og taka eftir aðalatriðum er styrkt og örvuð með opnum efniviði. Þessi hæfni er mikilvæg undirstaða alls náms seinna meir.
Valið er svo stórt mál og mikill grundvallarþáttur hjá okkur, að við sem störfum í Hjallastefnunni hættum aldrei að tala um, skilja og skilgreina hvað hið hjallíska val þýðir. Við spyrjum okkur hvernig við getum raunverulega látið þennan daglega starfsþátt verða að þeirri mannréttindayfirlýsingu sem hún stendur fyrir, í gegnum lýðræðis- og félagsþjálfun, og með því tryggt fullkomna virðingu fyrir vilja og áhuga barnsins.
Með valinu æfast börnin í þeirri hugsun að þau geti valið samkvæmt hjarta sínu og huga og þannig þjálfa þau hæfni sína til að vita vilja sinn. Þau velja milli tveggja eða fleiri kosta og standa með ákvörðun sinni og æfast í að taka aldrei neinu í lífi sínu sem gefnu, að vera reiðubúin til að grandskoða aðstæður sínar á öllum sviðum og verða gerendur í eigin lífi. Þetta er ein af forsendum þess að skapa eigið líf, en verða aldrei fórnarlömb ákvarðana annarra.
Valkerfið er hugsað sem rammi utan um frelsi barnsins til að taka eigin ákvarðanir um eigin athafnir, án þess að ganga nokkru sinni á rétt annarra. Það sem tryggir frelsi barnsins er að fullorðinsvaldið er tekið burt, því það er valkerfið sjálft sem stýrir. Þannig skynja börnin að öll þau sem sitja á valfundi séu jafnrétthá, þ.e. börn og kennarar, og í því felst m.a. lýðræðisþjálfun valsins.
Börnin fara á valfundi á hverjum degi, þar sem þau skiptast á að velja eftir mjög einföldu og skýru kerfi; öll börn fá sömu tækifæri til að velja fyrst og öll þurfa þau, að sama skapi, að verða síðust til að velja. Þetta er kallað millimetrajafnrétti í handbókinni okkar. Valfundur fer þannig fram að börnin sitja kjörnuð á plássinu sínu á mottu, og eftir að valfundarsöngurinn hefur verið sunginn er barninu sem fyrst er að velja boðið að gjöra svo vel, valfundurinn er þá formlega hafinn og öll börn velja koll af kolli.
Stundum þurfa börnin að horfast í augu við það að þeirra fyrsta val sé „fokið“ þ.e.a.s. að öll þau pláss sem fylgja ákveðnu tilboði séu orðin full, og þá þurfa þau að velja eitthvað annað. Þetta þykir sumum börnum erfitt til að byrja með, en þetta er samt í takt við lýðræðislegt samfélag, þar sem við fáum ekki alltaf það sem við viljum á gefnu andartaki, og stundum þurfum við að bíða eftir að tækifæri gefist. Þetta eilitla mótlæti sem barnið þarf að takast á við, eflir seiglu og þrautseigju.
Hjallastefnan vinnur með sveitafélaginu þar sem leikskólinn svarfar og eru sveitafélögin á Íslandi eru með mismunandi skráningarkerfi Á heimasíðum skólanna er hægt að finna allar upplýsingar um hvernig sótt er um skólapláss eða senda tölvupóst á skólann sem svarar og veitir ráðgjöf og allar upplýsingar.
Yfirlit yfir alla skóla má finna hér ásamt netfangi, símanúmeri og nánari upplýsingum. Við hlökkum til að heyra í þér.
Hjallastefnustarf er í boði á leikskólastigi víða um land eða í 15 leikskólum í ellefu sveitarfélögum. Yfirlit yfir alla okkar leikskóla má finna hér.
Barnaskólarnir okkar eru þrír og eru staðsettir í Reykjavík, Garðabæ og Hafnarfirði. Í barnaskólunumr okkar í Reykjavík og Garðabæ er kennsla á yngsta og miðstigi (1.-7. bekkur), en einungis á yngsta stigi í Hafnarfirði (1.-4. bekkur). Yfirlit yfir alla barnaskólana má finna hér.
Það er talið að kynímyndir barna séu mótaðar við tveggja ára aldurinn, þ.e. hugmyndir barnsins um hvað það þýðir að vera strákur eða stelpa og þar með getur barn vitsmunalega rekið sig á ef kynímynd þess passar ekki við líffræðilegt kyn. Á þessum aldri er hugsun þeirra mjög svart-hvít og það þýðir að þau máta sig við annað hvort kynið en eru ekki með vitsmunalega færni til að meta sig sem hvorugt eða á skala þarna á milli. Hérna er mikilvægt að muna að börn eru aðeins fárra mánaða þegar þau byrja að skilgreina allt í kringum sig sem annað hvort; karla eða konur, stelpur eða stráka og karllægt eða kvenlægt. Þetta er fyrsta breytan sem þau nota til að skilgreina heiminn, þessa óskiljanlegu ringulreið sem þau eru fædd inn í og þurfa að flokka og sortera til að koma reiðu á hugsun sína.
Ástæðan fyrir þessari ótrúlegu áherslu ungbarna á kynferði er ekki þekkt en er samt ástæða þess að þau staðsetja sig algjörlega sem annað hvort kynið. Ef barn skynjar að líffræðilega kynið passar sér ekki, er sjálfsagt að virða rétt þess til að skilgreina sig sjálft og viðurkenna það kyn sem barnið velur með viðeigandi nafni, klæðnaði og leikföngum. Það þarf ekki alltaf að þýða að barnið kjósi að skipta um líffræðilegt kyn síðar, það getur breyst þegar vitsmunaþroskinn ræður við abstrakt hugsun og þar með fjölbreyttar ímyndir og kynhlutverk og kynímynd á löngum skala á milli tveggja líffræðilegra kynja.
Mestu skiptir að foreldrar og fjölskylda sé í takti með leikskólanum þannig að barnið geti staðsett sig sem það kyn sem skynjar á leikskólaaldri. Önnur börn munu ekki gera athugasemdir við nýtt nafn ef þau fá einfaldlega upplýsingar um að barnið skynji sig hafa fæðst í röngum líkama því að fordómar koma aldrei frá börnum, heldur fullorðnum. Í kynjaskiptum hópum Hjallastefnunnar hefur okkur gengið mjög vel að mæta þessum tilfellum með einni undantekningu þó, því miður. Best hefur okkur reynst að bjóða barninu bara að velja sér drengjahóp eða stúlkahóp eftir að barnið hefur skilgreint sig að nýju. Eins vil ég nefna að þrátt fyrir kynjaskipta hópa hjá okkur, erum við mörgum framar að leiðrétta kynjaskekkjur og sem dæmi erum við með uniform skólaföt fyrir öll börn, engin hefðbundin leikföng eru til staðar og barnabækur, sögur og söngvar eru valin út frá því að innihalda ekki hefðbundin kynjahlutverk eða neikvæða ímynd af öðru hvoru kyninu.
Loks vil ég nefna að kynímynd eða kynímyndir barna hafa ekkert að gera með kynhneigð sem talin er mótuð við 5-6 ára aldurinn.
Hefðbundin leikföng eru ekki til staðar í Hjallastefnuskólum. Okkar hugsun er sú að opna leikefnið sé viðbót við leikföngin sem algeng eru á heimilum barnanna, og að þannig aukist þroskamöguleikar barnanna með stærri og fjölbreyttari snertifleti þegar kemur að ólíkum efniviði heima fyrir og í skólanum. Leikefnið okkar í skólunum eru m.a. trékubbar af ýmsum stærðum og gerðum, heimagerður leir, pappír, litir, málning og annað föndurefni, vatn og sandur, dýnur, púðar, teppi og borð og almennt efni sem hvetur til sköpunar og lausnamiðunar.
Varðandi barnabækur, þá er það algengur misskilningur að bækur séu ekki notaðar og jafnvel bannaðar í Hjallastefnuskólum. Það er alls ekki raunin og þvert á móti þá lesum við heilmikið fyrir börnin. Algengast er þó að sögur séu sagðar yngstu barnahópunum. Þannig náum við góðum og innilegum tengingum við börnin, málvitund þeirra og orðaforði eflist og auðveldara er að halda athygli barnanna þegar hún beinist beint að börnunum en ekki á bókina. Hins vegar þegar börnin verða eldri, að ekki sé talað um þegar þau eru farin að læra stafina og að lesa, þá er það mikilvægt að lesið sé fyrir þau til að vekja forvitni þeirra á bókum. Eins eru bækur á kjörnunum fyrir börnin að lesa, skoða og handfjatla og eru ljósmyndabækur sérstaklega vinsælar. Hópstýrur/-stjórar fara einnig mikið með eldri hópana á bókasöfn þar sem því verður við komið. Við veljum bækurnar sem börnin hafa undir höndum og þær sem við lesum fyrir þau, af kostgæfni út frá innihaldinu. Svo má ekki láta hjá líða að minnast á það að börnin hafa líka gaman af því að spinna sögur sjálf og búa til eigin bækur.
Að vera í fararbroddi í jafnréttismálum hefur alla tíð verið eitt af markmiðum Hjallastefnunnar. Segja má, með sanni, að jafnréttishugmyndafræðin hafi fylgt Hjallastefnunni frá fyrsta degi enda er Hjallastefnan jafnréttisstefna í sjálfu sér. Frá upphafi Hjallastefnunnnar hefur mikill metnaður verið lagður í að gæta jafnréttis milli nemenda og starfsmanna og kristallast sá metnaður einna helst í meginreglum og kynjanámskrá stefnunnar.
Meginreglur Hjallastefnunnar eru grundvöllurinn að öllu starfi Hjallastefnuskólanna, meginreglurnar eru í senn stefnuyfirlýsing og hugmyndafræði Hjallstefnuskólanna og fela þær í sér þá lífsýn og mannskilning sem Hjallastefnan stendur fyrir og starfsfólk sameinast um. Meginreglurnar eru sex og er hægt að nálgast þær hér (setja inn hlekk) á síðunni. Í stuttu máli er þeim ætlað að stuðla að því að hverju barni sé mætt eins og það er, að ólíkar þarfir aldurshópa, kynja og einstaklinga séu viðurkenndar og virtar. Meginreglunum er ætlað að stuðla að því að jákvæðni, gleði og kærleikur séu ráðandi öfl í skólastarfi, að samfélag innan hvers skóla sé einfalt, gagnsætt og að jafnvægi haft í öndvegi. Innan Hjallastefnunnar ber hverjum skóla að virða valfrelsi og ólíkan áhuga barna og hlúa ávíðfeman hátt að velgengni allra.
Skólar Hjallastefnunnar búa aukinheldur að sérstakri kynjanámskrá og unnið er kerfisbundið eftir þeirri námskrá allan ársins hring. Kynjanámskráin er birtingarmynd á hugsjónum Hjallastefnunnar um jafnrétti stúlkna og drengja. Hið kynjaskipta skólastarf hefur það að markmiði að gera báðum kynjum jafn hátt undir höfði og að mæta ólíkum þörfum stúlkna og drengja. Það er ávallt markmið Hjallastefnunnar að gefa börnum kost á því að starfa og leika á eigin forsendum þar sem menning allra er virt og viðurkennd.
Jafréttisáherslur Hjallastefnunnar miða að því að gera góðan vinnustað enn betri og að gera starfsumhverfi Hjallastefnunnar eftirsóknarvert. Það er mikið kappsmál fyrir Hjallastefnuna að tryggja jafnrétti í víðasta skilningi orðsins. Hjallastefnan hefur einsett sér að vanda til verks og því voru kynntar til sögunnar jafnréttisáherslur Hjallastefnunnar og eru þær sem hér segir: