Fjölmennasta Hauststefna Hjallastefnunnar verður haldin í dag föstudaginn 13. október
Í dag hittast yfir 500 manns frá 17 skólum Hjallastefnunnar í Reykjanesbæ í Hljómahöllinni. Hauststefna Hjallastefnunnar er árlegur viðburður þar sem allt starfsfólk Hjallastefnunnar kemur saman frá 17 leik- og grunnskólum sem Hjallastefnan rekur um land allt.
“Það er hefð fyrir því að dagur þessi sé fróðlegur, skemmtilegur og umfram allt er þetta dagurinn okkar. Dagurinn þar sem við komum saman og eigum gæðastund, þar sem hlátur, dans og fróðleikur blæs okkur móð í brjóst.”, sagði Bóas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri fræðslu og fagstarfs.
Afar dýrmætt er fyrir fólk að styrkja tengslin milli skólanna á Hauststefnu Hjallastefnunnar en dagskrá er með fjölbreyttasta móti. Hauststefnan hefst kl.15.00 á ráðstefnunni “Við erum frábær”. Valdimar Guðmundsson og Margrét Pála stíga fyrst á svið með söngstund eins og hefð er fyrir í starfi Hjallastefnunnar. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar ávarpar ráðstefnuna ásamt fleiri gestum. Frábær erindi eru á dagskrá en Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands verður með erindið “Vinátta, kærleikur og kraftaverk” og Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir doktorsnemi og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands ræðir kynjatvíhyggjuna. Föst hefði er fyrir því að bjóða Hjallastefnu foreldrum á Haustsstefnuna og eru það Kristín Eva Geirsdóttir og Sverrir Bergmann sem koma sem góðir gestir. Að lokinni ráðstefnu njóta vinkonur og vinir veitinga og Páll Óskar mun halda uppi fjöri. Dagskrá lýkur kl.20.30 áður en þessi stóri hópur heldur heim á leið.
„Fyrir mér er Hauststefna Hjallastefnunnar stór dagur þegar allt okkar starfsfólk kemur saman til að kjarna sig, fræðast og styrkja tengslin.“ Sagði Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi, eigandi og höfundur Hjallastefnunnar.
Til hamingju með daginn kæra starfsfólk Hjallastefnunnar