Skip to content

Gleðilega Hinsegin daga

Gleðilega Hinsegin daga ❤🧡💛💚💙💜

Allt frá því að Hjallastefnan varð til sem hugmyndafræði hefur jafnrétti verið í öndvegi í öllu okkar starfi.

Þannig segir í meginreglu 2 að Hjallastefnuskólar leitist við að sýna öllu starfsfólki fyllstu sanngirni og réttlæti og að öll, sem að Hjallastefnunni koma, séu velkomin og jafn rétthá til starfa óháð kyni, kyn- og litarþætti, trúar og stjórnmálaskoðunum, kynhneigð, menningu eða stöðu að öðru leyti.

En við sem hjá Hjallastefnunni störfum höfum þó gott að því, eins og allt fólk, að halda áfram að þroskast, vaxa, dafna og skerpa á skilningi okkar. Dagur hver, í skólastarfi, ber með sér nýjungar og það þekkjum við svo vel. Til þess að við getum haldið áfram að vera leiðandi afl í því að fagna fjölbreytileikanum er alltaf gott að við minnum okkur á nokkur á nokkur atriði:

Verum tilbúin að hlusta og læra ❤
Ef við erum opin og fús til þess að læra af fólki, um fólk, þá erum við að skapa umhverfi sem einkennist af öryggi. Verum forvitin og sýnum virðingu – ef það er eitthvað sem við ekki skiljum þá er í lagi að spyrja.

Sýnum samkennd 🧡
Eitt það mikilvægasta sem við getum hjálpað börnum að læra er kúnstin að setja sig í spor annarra. Þannig lærist virðing fyrir öðrum og þannig verður til menning fjölbreytileika og einlægra samskipta.

Stöndum saman gegn fordómum: Hjá Hjallastefnunni hefur alla tíð verið hefð fyrir því sem við köllum „rauntíma leiðrétting“. Ef við heyrum ranghugmyndum dreift eða fólk tala af vanþekkingu þá stöndum við saman gegn fordómum.

Við fögnum því að við erum öll ólík 💛
Við getum sannarlega fagnað fjölbreytileikanum á degi hverjum. Mikið sem veruleikinn væri einsleitur ef við værum öll eins.

Við höldum áfram að vera afl breytinga 💚
Við erum stolt af því að vera fyrirmyndir, af því að bera virðingu fyrir sjálfum okkur og fyrir öllu því fólki sem við kynnumst í gegnum störf okkar. Við erum samfélag jafnréttis og fjölbreytileika.

Við viljum öll upplifa okkur örugg í okkar umhverfi, rétt eins og börnin sem við berum gæfu til þess að sinna á degi hverjum. Verum alltaf meðvituð um það. Við höfum öll sama réttinn til þess að vera við sjálf, að vera eins og við erum og að njóta þess að vera til í öryggi og kærleika.

Gleðilega Hinsegin daga