Skip to content

35 ára afmæli leikskólans Hjalla

Í dag, 25. september, fagnar leikskólinn Hjalli við Hjallabraut í Hafnarfirði 35 ára afmæli

Skólinn hefur, frá fyrsta degi, verið skóli þróunar og heldur áfram að vera það. Leikskólinn varð hinn fyrsti sinnar tegundar á Norðurlöndunum til þess að notast við kynjaskiptingu í barnastarfi til þess að stuðla að samfélagslegu jafnrétti. Stefnan var þróuð af Margréti Pálu Ólafsdóttur og samstarfsfólki hennar í skólanum og hefur stefnan fengið byr undir báða vængi síðan þá, en Hjallastefnan er iðkuð í 18 skólum víðsvegar um landið.

Hjalli er fæðingastaður menntastefnu sem leggur áherslu, umfram allt, á jafnrétti, lýðræði og sköpun. Á leikskólanum leggjast öll á eitt um að skapa kærleiksríkt umhverfi sem einkennist af mennsku, virðingu og hlýju. Orðfæri barna og starfsfólks litast af þessari virðingu og hlýju sem er alltumlykjandi.

Hugtakið kjörnun varð til á Hjalla og vísar það til leitarinnar að mikilvægasta innihaldinu í hverju ferli, að finna niðurstöðu eða lausn, fjarlægja hismi og einbeita sér að kjarna málsins. Þannig mætti segja að kjörnun á starfsemi Hjalla snúist um það að mæta hverju barni eins og það er, virða ólíkar þarfir aldurshópa, kynja og einstaklinga. Að hlúa á víðfeman hátt að velgengni allra.

Öllum þessum 35 árum síðar finnum við svo sterkt hversu mikilvægt það er að standa vörð um jafnrétti og kærleika, að hvert eitt og einasta mannsbarn á skilið að vera elskað og virt. Að hverju barni sé gefin kostur á að styrkja alla þá þætti sem þau búa yfir, óháð staðalímyndum.

Til hamingju elsku Hjalli, kæru vinkonur og vinir ❤????????

@ Myndin sýnir þegar fyrsta skóflustungan var tekin